Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Flugfreyjan í flugi Icelandair býður farþega velkomna heim þegar lendingarhjólin snerta fósturjörðina. Þó eru Íslendingar í vélinni teljandi á fingrum annarrar handar. Ég vona að þessi huggulegi siður leggist ekki af og að Íslendingar geti fyrr en síðar haldið áfram að víkka sjóndeildarhring sinn með ferðalögum. Er þakklát fyrir að hafa fengið að fara í viðburðaríkt ferðalag sem ég sný aftur úr sem breytt manneskja. Vona að breytingarnar verði varanlegar.
Á heimleið frá Nablus stoppaði ég sólarhring í TA (Tel Avív), fallegri borg við Miðjarðarhafið sem virðist ljósár frá Nablus þó aðeins séu um 70 km á milli. Ég var í sjokki þann sólarhring sem ég dvaldi í TA og reyndi að refsa Ísraelum fyrir meðferð sína á Palesínumönnum með því að heimsækja ekki áhugaverða staði í borginni. Fannst svo erfitt að horfa upp á fólk lifa í vellystingum á meðan lífið er þurrkað úr meðbræðrum þess. En kannski var TA ekki rétti staðurinn til að refsa Ísraelsmönnum því gyðingar þar í borg munu vera meiri friðarsinnar en gyðingar í Jerúsalem (og Bandaríkjunum?). En ég hafði líka refsað gyðingum í Jerúsalem með fjarveru minni því í þau þrjú skipti sem ég heimsótti þá áhugaverðu borg fór ég nær ekkert út úr Austur-Jerúsalem og grísku hverfunum. Þegar ég kom til TA á síðsta sólarhring ferðar minnar hafði ég því varla hitt nokkurn Ísraelsmann nema þungvopnaða hermenn við varðturnana (sem oft voru stelpur á aldur við hana Brynju mína) og svo hafði ég séð nokkra strangtrúaða karlmenn með slöngulokka og konur í síðum svörtum pilsum með hatta við Jaffa-hliðið.
Samferðafólk mitt með í rútunni á milli Jerúsalem og TA var óvingjarnlegt. Einkum bílstjórinn og þá sér í lagi þegar ég hafði óvart þakkað fyrir mig með arabísku shokran. En ég verð þó að viðurkenna að allir aðrir Ísraelar sem ég hitti voru afar vinsamlegir. Ég skrapp á ströndina þar sem ég bætti við margvíslegar brúnar litarendur sem líkami minn hafði komið sér upp á mánuði á svæði þar sem sýna má mismikið af holdi; aðeins andlit í Palestínu, hluta af hálsi, handleggjum og fótleggjum í Jerúsamlem og nær allt á ströndinn í Tel Aviv. Fékk mér að borða á veitingastað þar sem ég þurfti að gangast undir vopnaleit og eyddi lunganum úr deginum í að leita að pappakassa, límbandi, tússpenna og pósthúsi því vissara er að póstleggja alla þá hluti sem eiga uppruna sinn í Palestínu. Slíkt er ekki óhætt að hafa í farangrinum á Ben Gurion. Kvöldinu eyddi ég á hótelherberginu við að semja trúverðuga sögu til notkunar í yfirheyrslunni sem beið mín daginn eftir og ég var búin að kvíða lengi fyrir svo lengi að ég hafði meira að segja útvegað mér fyrir brottför mína að heiman bréf frá geistlegum yfirvöldum á Íslandi sem staðfesti að ég hefði heimsótt landið helga til að skoða helga staði. Ég hafði heyrt svo margar hryllingssögur um yfirheyrslur ferðamanna (meira að segja forsetafrúa af ísraelskum uppruna) á flugvellinum að ég vildi hafa mitt á þurru, eins og reyndar Project Hope ráðleggur okkur sjálboðaliðunum að gera. Ingrid hin norska hafði fengið þriggja tíma yfirhalningu við komuna til landsins, sem er frekar fátítt. Hún kveið heimförinna sérstaklega því síðan hún lenti í yfirheyrslunni við komuna hafa norsk yfirvöld kallað gjörðir Ísraela hryðjuverk. En mér leið eins og njósnara á hótelherberginu þar sem ég eyddi hættulegum skjölum úr tölvunni, símanúmerum úr gemsanum og faldi kortið úr myndavélinni. Síðan las ég mér til um helga staði sem ég hafði ekki heimsótt eins og ég væri að búa mig undir munnlegt próf. Um morguninn setti ég um háls mér tákn kristinnar trúar, setti upp sakleysislegan guðræknissvip, fór í snyrtilegustu fötin mín og lagði land undir leigubíl.
Áður en ég kom til Miðurausturland hafði ég ekki áttað mig á fjölbreytileika mannlífsflórunnar á þessu svæði sem nú kallast Palestína og Ísrael, en hét Palestína þar til Ísraelsríki var stofnað 1948. Gyðingar eru til dæmis ekki bara gyðingar heldur búa hér mismunandi gyðingar, einkum þó af tvenns konar uppruna; Ashkenazy-gyðingar og Sephardi-gyðingar. Þeir fyrrnefndu koma frá mið- og austur Evrópu, en eru einnig afkomendur gyðinga sem fluttu til Norður- og Suður-Ameríku, S-Afríku og Ástralíu. Árið 1931 voru tæpar níu milljónir Ashkenazy-gyðinga í Evrópu, en um 2/3 þeirra urðu fórnarlömb helfararinnar. Þeir eru þó um 80% gyðinga heimsins og þeir eru yfirstéttin í Ísrael. Flestir gyðingar í Palestínu fyrir stofnun Ísrael voru Sephardar, en það eru afkomendur gyðinga sem reknir voru frá Spáni og Portúgal á 16. öld. Þessar tvær ættkvíslir tala mismunandi hebresku. Mazrahi-gyðingar komu hins vegar frá Arabalöndum þegar arabar úthýstu þeim eftir ´48. Beta Israel eru gyðingar frá Eþíópíu sem fluttir voru úr hungursneyðinni þar á síðari hluta síðustu aldar. Þeir eru lágstétt gyðinga í Ísrael.
Palaestínuarabar eru þeir sem búa á Vesturbakkanum og Gazaströndinni og flóttamenn í nágrannalöndunum. Arabar sem búa í Ísrael eru kallaðir ísraelskir arabar. Meirihluti þeirra eru múslimar en fæstir strangtrúaðir. Á Gazaströndinni búa fúndamentalistarnir og stuðningsmenn Hamas. Fylgismenn Fatah á Vesturbakkanum eru ekki eins strangtrúaðir. Fyrir stofnun Ísraelsríkis voru 10% íbúa Palestínu kristnir, en nú eru þeir um 2% íbúa Palestínu og Ísrael. Kristnir tilheyra grísk- og rómverk kaþólsku kirkjunni, armensku kirkjunni, asseríukirkjunni og mótmælendakirkjunni. Auk þessa búa bedúinar í Landinu helga, en lönd þeirra fara æ minnkandi vegna útþenslu Ísraelsríkis, drúsar, samverjar (sjá fyrra blogg), afrískir-hebreskir Ísraelsmenn og fleiri.
Í húsi Project Hope í Nablus bjó ég með Kandamönnum, Könum, Bretum, Skotum, Frökkum, Þjóðverjum, Hollendum, Norðmönnum og Svíum. Flestir voru á þrítugsaldri, en einn vitlausu megin við miðjan aldur eins og ég komu þó til að sinna sjálfboðaliðastörfum. Símaviðtal sem sjálfboðaliðar fara í áður en þeim er hleypt til Nablus gegnir meðal annars því hlutverki að sía úr svokallaða ,,war-tourists and conflict-hoppers og líka þá Vesturlandabúa sem ætla sér að bjarga heiminum. Ég var látin svara því hvers vegna ég vildi fara til Palestínu án þess að nota sögnina ,,to help. Pólitískt rétt orðnotkun er ,,contribute and share. Mér þótti ungu sjálfboðaliðarnir vel upplýstir um stöðu heimsmála, enda margir hámenntaðir í átaka- og friðarfræðum. Það var gaman að spjalla við þá fyrir utan það hvað enskan mín er formleg. Mér leið eins og Henry Higgins í samræðum við þá því mér er fyrirmunað að segja fucking í öðru hverju orði og segja,, ...and then I went like uh and he went like ah and I went like fuck ...!
Eftir að hafa farið í gegnum tíu vegabréfaskoðanir og álíka margar vopnaleitir gekk ég í gegnum hliðið inn á alþjóðlegt svæði Ben Gurion flugvallar. Mér var létt en leið þó eins og eftir próf þar sem spurningin sem maður hefur undirbúið best er aldrei spurð. Ég sagði einu sinni að ég hefði verið í landinu helga til að skoða ,,sacred sites eins síðan ekki söguna meir.
Nú sit ég við eldhúsborðið og set punktinn aftan við síðasta bloggið um Palestínu. Ég þakka ykkur samfylgdina og er meira en til í að mæta á mannamót og segja frá ferðinni minni.Bloggar | 4.5.2009 | 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
Af mbl.is
Erlent
- Ísrael gerir árásir á Húta í Jemen
- Dalai Lama níræður: Vill verða 130 ára
- Vonar að fundurinn með Trump hjálpi til með vopnahlé
- Kapphlaup við tímann í Texas
- Það eru ekki mannréttindi að búa í Svíþjóð
- Rússar segjast hafa náð tveimur þorpum á sitt vald
- Telja sig hafa handtekið skipuleggjanda tilræðisins