Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Bloggar | 30.4.2009 | 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jæja, þá er ég farin að kenna í Balata. Þar er allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér því Balata er í rauninni bara þorp í útjarðri borgarinnar. Það eru um 50 palestínskar flóttamannabúðir á Vesturbakkanum, Gaza og í Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon, en Balatabúðirnar í Nablus er stærstar. Við aðalinngang þeirra er lítil og falleg kristin kirkja sem byggð er utan um brunn Jakobs þar sem samverska konan brynnti Jesú. Ég drakk úr honum um daginn á leiðinni í fyrstu heimsókn mína í búðirnar (og um daginn, reyndar á páskadag sem er pálmasunnudagur grísk-kaþólskra, kyssti ég steininn sem Jesús sat á þegar hann talaði við Mörtu og Maríu. Hann er í grísk-ortódox kirkju í Betel rétt fyrir utan Jerúsalem, en þangað fór ég með Nick og frönskumælandi presti. Til að komast keyrandi frá heimili Nicks í miðborg Jerúsalem þurfti hann að bakka í gegnum hálft hverfið, talandi ensku við mig, frönsku við prestinn, grísku við konu sem var með okkur og hebresku og arabísku til skiptis í símann.) Ég fékk svo að heilsa öllum þessum virðulega grískaþólsku prestum með handabandi, borða grískan mat í safnaðarheimilinu, keyra framhjá Sinai-eyðimörkinni og stærstu landnemdabyggðunum sem eru rétt fyrir utan Jerúsalem.
En aftur til Balata. Talið er að um 30.000 manns búi á þessu tveggja ferkílómetra afgirta svæði. Þar hafa kynslóðir búið hver fram af annarri síðan arabar misstu lönd sín við stofnun Ísraelsríkis 1948 og þeir sem þar búa eiga litla möguleika á að komast þaðan. Þar er heldur fátæklegt um að litast, þar sér maður skítug og berfætt börn sem ég hef ekki séð annars staðar, geitur inni í íbúðahúsum og hana spígsporandi um göturnar og ég fannst ég verða vör við meiri tortryggni í minn garð þar annars staðar. Túlkurinn minn, hún Hiba sem margir halda að sé útlendingur sagði mér að hún heyrði fólk tala um að við værum gyðingar. En það er gaman að kenna í stúlknaskólanum, sem rekinn er af Sameinuðu þjóðunum eins og allmargir aðrir grunnskólar. Skólinn (sem ég hef lýst áður) er tiltölulega nýr og lítt farinn að láta á sjá. Hann er á þremur hæðum og byggður í kringum steypta skólalóð og hávaðinn er eins og í fuglabjargi þegar þúsund stúlkur streyma út á lóðina. Ég verð að viðurkenna að byggingin minnir mig svolítið á fangelsi, en andinn er allt annar (segi ég eins og ég hafi heimsótt þau mörg fangelsin). Á kennarastofunni hitti ég allar þessar stórkostlegu konur, ég er svo hrifin af palestínskum konum. Blæjuklæddum og baráttuglöðum. Ein er sérstaklega áhugaverð, kannski af því að hún talar besta ensku. Alveg hreint ótrúlega kona. Talar ensku eins og hún hafi aldrei gert annað, en ekki bara það heldur reifar hún umræðuefnin af þekkingu viðreistrar manneskju þó að hún hafi aðeins komið til Jórdaníu og Tyrklands. Hún fylgist með því sem er að gerast í heiminum, bæði í stjórnmálum og hugsunarhætti, en heldur innblásnar ræður um ágæti íslam og ég er farin að skilja múslima svo miklu betur. Það er eitthvað svo heillandi við sakleysi þeirra og siðgæði sem við gætum lært mikið af. Allah býður þeim að vera góðar manneskjur, að gera ekki flugu mein, ekki einu sinni fella tré. Að deila með öðrum, að finna til með öðrum, að vera trúr og heill og hreinn í hugsun. Ég er ekki í trúboði, en eftir þessa stuttu reynslu af því að deila kjörum með múslimum (ég hef reyndar áður farið til múslímskra landa án þess að frelsast), finnst mér svo margt gott í islam. En eftir að ég kom hingað er ég enn svartsýnni á að til sé lausn á deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég spurði yfirkennarann þegar hún keyrði mig heim um daginn hvort hún sæi einhverja lausn og hún sagði að eina lausnin væri nýir leiðtogar beggja vegna. Sumir hér trúa á tveggja ríkja lausnina, en margir gera það ekki. Segjast ekki getið búið við hlið óvina sinn og tekið í hönd þeirra sem drepið hafa ástvini þeirra. Skólastjórinn hefur líka mikla útgeislun, pínulítil en sterk í lillabláu síðu kápunni sinni með brúna blæju. Hún mun vera tónskáld og semur lög sem nemendur syngja við hvert tækifæri. Mér er sagt að hvergi séu eins fjölmennir bekkir og í Palestínu. Ég lenti í því í Banat Nablus að samþykkja að hafa heilan bekk, en komst ekki að því fyrr en ég mætti á svæðið að í heilum bekk eru fjörutíu nemendur. Ég sat uppi með fjörutíu ellefu ára stelpur sem ég þurfti án túlks að láta mála með akrýllitum og bíða á meðan liturinn þornaði. Það reddaðist þannig að ég lét helminginn mála og fór út með hinn helminginn og kenndi með látbragðinu einu íslenskan leik sem heitir blikkleikur og ég veit ekki hvort fólk kann lengur. Hér reyndir svo sannarlega á sveigjaleika manns sem kennara og hugmyndaflug. Annars er aginn hér mikill, en krakkarnir opnir, skemmtilegir og skapandi og hanga utan í mér, gefa mér sælgætið sitt og snakkið (sem er skólanestið þeirra enda er tannheilsa ekki góð), slást um að fá að leiða mig. Í gær gerði ég svolítið af mér reyndar í fyrsta skipti því ég er búin að passa rosalega vel að hegða mér fullkomlega fyrim augun Allah - ég dansaði í kennslustofunni. Við vorum að klára að ganga frá (já, það er eitt, börnin ganga óumbeðin frá og fara mjög vel með alla hluti, ekki síst vatnið) og fjörutíu stelpur höfðu hópast í kringum mig og sumar byrjuðu að klappa takt og ein afar glæsileg hávaxin unglingsstúlka sýndi tilburði til að byrja að dansa svo að ég tók þessi örfáu spor sem ég kann í magadansi við afar mikla hrifningu. En Hiba var ekki ánægð og það hafði spurst á niður á kennarastofu að ég hefði dansað. Ég hélt að það væri í lagi að dansa þar sem bara voru stelpur, en það má ekki dansa í kennslustofu í Balata. Yfirsjón mín var þó fyrirgefanleg og ekki talin eins slæm og þegar nemendur spurðu amerískan sjálfboðaliða hvernig kristnir menn bæðust fyrir. Það fréttist að sjálboðaliði frá Project Hope hefði verið í kristniboði og alllangur tími leið þar til þeim var aftur aftur inn í skóla í Balata. Maður á erfitt með að skilja samskipti kynjanna, en virðir bara þá siði sem hér gilda. Maður fær líka oft ansi góðar spurningar eins og ,,fyrst skilnaðir eru svona algengir á Vesturlöndum hvers vegna eru þeir alltaf jafn sárir? og ,,fyrst karlmenn á Vesturlöndum þykjast sýna konunum virðingu með því að líta á þær sem jafninga sína hvers vegna eru nauðganir þá svona algengar?
Bloggar | 30.4.2009 | 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í Betlehem er guð á hverju götuhorni eins og í Jerúsalem. Hér hófst þetta allt; kristni, gyðingdómur og íslam, trúarbrögð sem öll spruttu af sama meiði. ,,Betlehem er besti staður í heim því Jesús kaus að fæðast hér, sagði töskuberinn á hótelinu. Ég veit ekki af hverju hann fylgdi mér alla leið að herberginu því ég var bara með lítinn bakpoka, líklega af því að það tíðkast á fínum hótelinu. Ég leyfði mér þann munað að gista á fínu hóteli. Hafði ætlað að ganga á milli hótela og kanna verð, en þegar til kom krafðist leigubílstjórinn þess að ég vissi hvert ég ætlaði og Intercontinental var eina nafnið sem ég mundi. Það var líka orðið áliðið og ég hafði heyrt sögusagnir um að eigi væri alltaf rúm fyrir fólk í gistihúsum í Betlehem.
Borðaði á hótelinu ótrúlega vondan vestrænan kvöldmat fyrir svipað verð og ég eyði í mat á viku í Nablus. Gaf mig á tal við þjóninn sem endaði með að hann bauðst til að sýna mér Betlehem og fara með mig í kaffi til föður síns, eiginkvenna hans og barna. Morguninn eftir fórumst við á mis og ég hélt að þetta hefði verið venjulegt kurteisissnakk svo að ég tók service- bíl að Fæðingarkirkjunni. Service bílar eru sérmerktir leigubílar sem keyra vissar leiðir og taka upp fólk á leiðinni. Ég held að þetta væri frábær lausn á almenningssamgöngum í Reykjavík. Fyrir utan kirkjuna rakst ég á mann sem ráðlagði mér að fara ekki inn strax heldur hinkra í smástund eftir kínverska utanríkisráðherranum. Hann benti mér líka á borgarstjóra Betlehem og grísk-kaþólskan æðstaprest sem biðu komu ráðherrans. Þegar svörtu lúxusbílana bar að garði hálfpartinn ýtti þessi nýi vinur mér inn í þvögu ljósmyndara og ég smellti af í gríð og erg á meðan lögreglan hélt forvitnum túristum í skefjum. Ef einhvern vantar myndir af kínverska utanríkisráðherranum og borgarstjóranum í Betlehem er ég aflögufær.
Inni í kirkjunni mætti ég þjóninum Fadi sem hafði komið til að leita að mér. Hann sýndi mér kirkjuna og reyndi á sinni aumu ensku að segja mér kristnisöguna en var þó aðallega upptekin af hlutverki Fæðingarkirkjunni í Intifada árið 2002 þegar 200 Palestínumenn dvöldu í kirkjunni í 39 daga undir vernd kristinna. Sambúð múslima og kristinna Araba í Betlehem er góð, en Ísraelsmenn hafa reist ótrúlega ljótan múr í þessi fallegu borg. Fadi sagði mér að innan hans væru höfuðstöðvar hersins og synagóga. Eftir kirkjuferðina fórum við á kaffihús, gríðarstóra Coffee shop þar sem vinir Fadi vinna og arabískir karlmenn eyða tímanum sem margir virðast eiga ofgnótt af. Á kaffihúsum er drukkið kaffi og reyktar vatnspípur, sem er mjög félagsleg athöfn. Þó að ég hafi síðast reynt að reykja sautján ára ákvað ég að prófa argíla með epla- og myntubragði. Ég veit ekki almennilega hvað er í pípunum, en það er alla vega skárra en tóbak á bragðið. Fadi segist fara á kaffihúsið á hverjum degi til að drekka kaffi, reykja argíla og hitta fólk. Hann og vinir hans segja mér að lífið sé frekar tilbreytingarlaust og felist í því að vinna og sofa og fara svo aftur að vinna og sofa. Þeir telja sig þó heppna að hafa atvinnu því atvinnuleysi í Palestínu er um 50% og 70% ef konurnar eru taldar með. Mér sýnist að þessi 30% sem hafa vinnu séu aðallega smákaupmenn því verslun er ótrúlega mikil hér. Fadi er barþjónn að aðalstarfi þó að hann þjóni líka í sal. Hann hefur unnið á hótelinu í þrjú ár en hefur ekki enn sagt föður sínum að hann snerti vínflöskur í vinnunni því föður hans myndi þykja atvinnuleysið betra. Fadi, eins og allir aðrir sem ég hitti, þyrstir í að kynnast umheiminum. Á meðan hér var ferðafrelsi fór hann með foreldrum sínum til Jórdaníu en man ekki eftir þeirri ferð. Hann fær ekki að fara til Jerúsalem sem er í átta kílómetra fjarlægð, en hefur farið til Jeríkó og Hebron. Í sumar býðst honum að fara í vikuferð til Þýskaland með mótmælendakirkjunni sem hann starfar með þó að hann sé múslimi. Svíþjóð er samt fyrirheitna landið, þangað vill hann flytja. Sænskir túristar hafa sagt honum frá velferðarkerfinu og að það sé ekkert dýrt að búa í Svíþjóð. Ég reyni að útskýra fyrir honum að verð séu há en það séu launin líka, en hann skildi ekki afstæði verðslag frekar en nemendur mínir sem spyrja mig hvað allar eigur mínar kosta og geta ekki skilið þessi háu verð. Eftir vatnspípuna var ferðinni heitið í Dheisheh flóttamannabúðirnar að hitta fjölskyldu Fadis. Íbúar Dheisheh búðanna, sem eru stærstar af þrennum flóttamannabúðum í Betlehem, eru um 5000. Á húsi Fadis býr faðirinn á neðstu hæðinni ásamt ungri konu sinni og nýfæddum syni (hvað er þetta með Betlehem og nýfædda drengi?) Þar hittum við fyrir móður Fadi með nýfætt barnið sem hún virtist afar stolt af. Hún býr á efri hæð hússins ásamt þeim börnum sem enn eru heima. Hún átti tólf börn með eiginmanni sínum en svo gerðu þau samkomulag sín á milli um að hann fengi sér aðra eiginkonu. Hún var líklega orðin þreytt á barneignum, en Palestínumenn eignast mörg börn, kannski af því að afföll eru mikil. Elsti bróðirinn býr í næsta húsi með sívaxandi barnaskara sinn. Sá næstelsti er í frelsishetja í fangelsi þar sem hann verður næstu fimm hundruð árin, segir Fadi stoltur. Það er fánaskreytt mynd af honum á aðaltorginu ásamt þrjátíu öðrum frelsishetjum. Ein dóttirin var skotin og sjálfur var Fadi handtekinn sem ungur drengur fyrir að kasta steinum í skriðdreka og fékk að dúsa í fangelsi í viku. Hann benti mér á billjardstofuna þar sem hermennirnir fundu hann, en hann hafði þá ekki sofið heima sjá sér síðan hann framdi ódæðið. Leigubílstjóri í Nablus sagði mér að hann hefði setið í fangelsi í þrjú ár fyrir litlar sakir en þar hafði hann lært ensku. Ég hef lesið að fangelsin séu einskonar háskólar því fangar taka höndum saman um að mennta hver annan. Þessi þjóð er ótrúlega vel menntuð. Mér er sagt að 70% þjóðarinnar hafi háskólamenntun, en því trúi ég nú varla, líklega hafa þeir meint 17%. En nemendur mínir hafa margir meistara-og jafnvel doktorsgráðu. Ég hitti um daginn unga konu sem var með meistarapróf í verkfræði og arkitektúr. Hún hló þegar ég spurði hana hvort hún ynni við fagið. Það er skrítin tilfinning að ganga um nýbyggðan háskólann í Nablus og sjá þúsundir ungmenna sem leggja á sig langt og strangt nám án nokkurrar vonar um vinnu. ,,En það er hægt að taka allt frá okkur nema menntunina, segir fólk. Eftir heimsóknina til fjölskyldu Fadis, þar sem ég drakk dísætt te þar til það flóði út úr eyrunum á mér, skoðuðum við allar þrjár flóttamannabúðirnar og ég tók graffíti-myndir. Það er pólitískt veggjakrot út um alla borgina, en sterkastar eru myndir óþekkta listamannsins Banksy sem hann gerði undir yfirskriftinni Let us spray. Nokkrar þeirra má sjá á netinu með því að gúgla Banksy og Let us spray. Í minnstu flóttamannabúðunum, sem eru í miðborg Betlehem, var fjöldi borgarstarfsmanna upptekinn við að flikka upp á umhverfið því páfinn ætlar að heiðra búðirnar með heimsókn sinni þegar hann kemur til Betlehem í maí.
Eftir að hafa þakkað Fadi fyrir fylgdina fór ég aftur í Fæðingarkirkjuna. Það er magnað að standa frammi fyrir fæðingarstað frelsarans sérstaklega þegar það gerist eins skyndilega og í mínum tilviki. Ég hafði elt enska, þýska og franska leiðsögumenn til skiptis og skoðað með þeim altarið og gamla mósaíkgólfið sem fannst fyrir sjötíu árum og er úr þeim minnstu mósaíkflísum sem ég hef augum litið. Ég nennti ekki að standa í fjórfaldri fimmtíu metra röð til að sjá fæðingarstaðinn og sagði við sjálfa mig að það væri hvort sem er ekkert að marka svona eldgamlar heimildir. En þar sem ég ráfaði um kirkjuna rakst ég á tíu manna biðröð arbaba sem ég ákvað að sameinast og huldi hár mitt til öryggis. Þetta reyndist vera hinn inngangurinn og ég gekk á móti straumnum að fæðingarstað frelsara míns. Allah hefur fylgt mér í þessari ferð og lagt allt upp í hendurnar á mér. Ég vona að bæði hann og guð verði með mér á Ben Gurion því það mun ekki vera auðvelt að komast úr landi. Og eftir að hafa séð fæðingarstaðinn fór ég að hugsa um gildi þessara gömlu heimilda sem er gríðarlegt. Fæðingarkirkjan er til dæmis reist aðeins 300 árum eftir fæðingu Jesús. Hvort sem maður trúir á upprisu holdsins og eilíft líf er varla hægt að neita því að atburðir biblíunnar eru að miklu leyti sannsögulegir og að þetta fólk var til. Um kvöldið fyldist ég með brúðkaupsveislu á Intercontinental. Það voru þrír myndatökumenn í salnum og pródúsent sem sat frammi sá um myndblöndum. Ég fékk að sitja hjá honum um stund og fylgjast með veislunni. Brúðguminn skar tertuna með sverði.
Daginn eftir var ég fjóra og hálfan tíma þessa um það bil 70 kílómetra leið heim til Nablus. Það hvellsprakk á rútunni á miklum hraða og svo vorum við stoppuð við alla checkpointa og við biðum tímunum saman á meðan leitað var í farangri. Amerískur ferðafélagi minn sem kennir ensku fyrir önnur sjálfboðaliðasamtök í Nablus sagði mér að í fyrranótt hefðu hermenn í leit að grjótkastara sparkað upp dyrunum hjá henni. Í morgun las ég í fréttunum að ísraelsk kona gift Palestínumanni sem gekk með fimmta barn þeirra hjóna hefði verið handtekin og ekki leyft að heimsækja ættingja eiginmanns síns í Nablus. Svona er lífið í Palestínu.
Bloggar | 30.4.2009 | 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
UN Banat Nablus er stúlknaskóli rekinn (eða að minnsta kosti styrktur) af Sameinuðu þjóðunum. Þar gerði ég friðarfiðrildi með einum 80 stúlkum í þremur bekkjardeildum. Auk þess sýndi ég einni bekkjardeild myndir frá því merkilega landi þaðan sem ég kem og þar sem nóg er af vatni og landrými og ekki hefur verið barist með vopnum í mörg hundruð ár. Ég hélt líka glærukynningu um Ísland fyrir blaðamennina sem ég kenni ensku og þegar ég sagði þeim frá her- og vopnleysinu sló þögn á mannskapinn þar til einn spurði: ,,Vita Ísraelsmenn af þessu?
Skólastýran í UN Banat (stúlkur) Nablus er kona að nálgast eftirlaunaaldur sem stýrði í fjöldamörg ár einum skólanna í Balaton-flóttamannabúðunum. Hún er ákaflega mikil hugsjónakona og við áttum góðar stundir saman á skrifstofunni hennar þar sem ég sagði mér frá gildum sínum og hugsjónum í skólastarfi. Um þessar mundir stýrir hún gæðastarfi meðal kennaranna í skólanum sínum. Tilgangurinn er að láta kennarana orða gildi skólans og að því loknum ætlar hún að láta semja skólasöng sem felur í sér gildin. Ég stakk upp á því að hún skreytti líka hlið skólans með gildnunum og kannski fellur hún fyrir þeirra hugmynd (ég hefði boðist til að gera það ef ég hefði stoppað lengur). En skólasöngurinn verður líklega sunginn á eftir þjóðsöngnum sem alltaf er sunginn í skólunum á morgnana og maður heyrir hljóma um allt, stundum vakna ég við að strákarnir í skólanum í grennd við Project Hope syngja þjóðsönginn (ef ég hef ekki þegar vaknað við sprengingarnar í flóttamannabúðunum, hroturnar í herbergisfélögunum, hanagalið eða bænakallið).
Við erum aldrei einar á skrifstofunni hennar því hún sinnir ótal erindum á meðan hún skenkir mér dísætt te og pítubrauð sem hún bakar sjálf og talar um menntamál. Skrifstofan er full af nemendum, kennurum, foreldrum og embættismönnum og ég hef líka hitt dóttur hinnar og barnabörn og hún sinnir öllum erindinum í einu og kvartar ekki undan aðstöðuleysi. Sonur hennar sem býr í Ameríku sendi henni fyrir nokkrum árum eintak af einni bóka Howard Gardners, sem hún lagði mikla vinnu í að lesa en enskan hennar er ekkert alltof góð. En hún hreifst svo af hugmyndum um fjölgreind að hún hóf að móta allt sitt skólastarf í anda Gardners, fyrst í Balata og svo í Banat Nablus. Þegar ég spyr hana hvort margir vinni á þessum nótum í Palestínu segir hún að ýmsir viti af þessum hugmyndum og sæki á grunnmið, en hún sé sú eina sem sækir á djúpið. Ég spurði síðar sérkennarana sem ég kenni ensku hvort þeir þekktu til fjölgreindarkenningarinnar. Þegar í ljós kom að þeir gerðu það ekki lagði ég mikla vinnu í að útbúa glærukynningu um The Theory of Multiple Intelligences á myndmáli og ensku fyrir byrjendur.
Skólastýran sýnir mér kannanir sem hún hefur sjálf útbúið til að meta námslega styrk- og veikleika nemenda sinna. Nemendur meta sig sjálfir auk þess sem kennarar og foreldrar gera það og síðan er haft samráð um hvernig megi vinna úr niðurstöðunum. Hún verður hissa þegar ég spyr hvort foreldrar taki almennt þátt í þessu og segir mér með þeim innblásna svip og ákveðna rómi sem einkennir ofurhuga að auðvitað séu allir með af því að framtíð barnanna sé í húfi. Mér hefur skilist að fjölskyldubönd séu afar sterk hér og börn mikils metin. Blaðamennirnir segja mér að það þyki lítið að eiga þrjú börn eins og ég. Fimm til sex séu normið en því fleiri börn því meiri blessun. ,,We are like rabbits segja þeir og hlægja. Þeir sem eru giftir eiga fjögur til sex börn, en hinir ógiftu eru búnir að ákveða hvað börnin þeirra eiga að heita. Í hópnum er þó einn sem er ekki á þeim buxunum að mynda fjölskyldu (sem er reyndar sá myndarlegasti) en hinir hafa nokkrar áhyggjur af geðheilsu hans. Þeir segja mér líka frá konu í Nablus sem eignaðist 24 börn og átti í stökustu vandræðum með að muna nöfnin þeirra. Og íslensk stelpa, hún María sem rekur snyrtistofuna Amiru í Skeifunni, hefur sagt mér frá því að þegar hún sem unglingur bjó í Ramallah hafi henni fundist svo gaman af því að þá var fjölskyldan alltaf saman á kvöldin.
Stelpurnar í Banat Nablus eru yndislegar. Þær eru allt í senn skemmtilegar, skapandi, forvitnar, hlýðnar og agaðar. Þær koma unnvörpum til mín, faðma mig og jafnvel kyssa, segjast elska mig og verkefnin sem þær fá að vinna hjá mér. Það er ögrun að standa frammi fyrir 40 stúlkna bekk sem ekki skilur nema brotabrotabrot af því sem maður segir, að hafa ekki þann efnivið og verkfæri sem maður telur sig vanta en allt gengur samt sem áður upp! Nú er fiðrildaverkefninu lokið og myndin komin upp á vegg í stigagangi UN Banat Nablus. Ég er stolt af því að áttatíu stelpur tóku þátt í þessu friðarverkefni. Glöðust var ég samt þegar ég kom einn daginn til að taka mynd af verkinu og sá stelpu sem virtist svolítið á eftir (og hinar stelpurnar voru reyndar vondar við og sögðu mér með táknmáli að væri heimsk) standa við myndina og grandskoða fiðrildið sitt.
Bloggar | 28.4.2009 | 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrst hélt ég að ég þyrfti að drepa frítímann hérna í Nablus - nú hef ég svo mikið að gera að ég næ ekki að festa á blogg allt það sem mig langar að skrifa um.
Nú er að hefjast afmælisveisla Finos (sem er palestínskur sjálfboðaliði), verið er að elda palestínskan mat uppi, en ég er í eldhúsinu niðri að leggja síðustu hönd á íslenska kjötsúpu sem verður á boðstólum annað kvöld, en þá er Icelandic evening fyrir palestínska og alþjóðlega sjálfboðaliða. Ég held erindi um Ísland og býð upp á íslenska súpu og brauð. Er búin að elda svo stóran skammt af súpu að ég ætla líka að bjóða blaðamönnunum mínum að smakka.
Uppskriftin er þessi: Ég keypti fullt af góðu lambagúllasi á markaðnum og líka dálítið af beinum með kjöttægjum og smá fitu. Sauð beinin ásamt heilum laukum, heilum hvítlausrifjum, heilum gulrótum, slatta af engifer og spínati ásamt kjötteningum og salti. Steikti svo góðu bitana í olífuolífu ásamt smátt skornum lauk og hvítlauk. Hellti soðinu yfir og sauð áfram. Bætti við kartöfllum, gulrótum og rófum, hvítkáli og spínati. Fór svo á markaðinn og bað um krydd fyrir lambakjötsúpu. Yam, yam.
Önnur uppskrift sem ég bjó til um daginn: Ég steikti kalkún (má nota kjúkling) í bitum ásamt lauk, hvítlauk, engifer, rúsinum og helling af spínati og kryddaði með austurlenskum kryddum. Bar fram með brauði. Mjög gott.
Á morgun fer ég í Balata flóttamannabúðirnar að gera friðarfildriði, svo kenni ég sérkennurunum, síðan blaðamönnunum og verð að lokum með íslenskt matarboð og fyrirlestur um landið.
Svo á ég eftir að þiggja öll heimboðin því nú styttist í að ég fari héðan. Og ég á eftir að skrifa um svo margt: Balata-flóttamannabúðirnir, áhugaverðan skólastjóra í Banat Nablus, Jerúsalem, Betlehem, allar þjóðirnar sem byggja Ísrael og Palestínu, sjálfboðaliðana hjá Project Hope og svo náttúrlega óendanlega mikið um ástandið hér.
Vona að bráðum gefist tími til að blogga meira.
Bloggar | 21.4.2009 | 04:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 16.4.2009 | 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 16.4.2009 | 08:36 (breytt 20.4.2009 kl. 17:53) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Samverjar eru ævaforn þjóð. Í Kyriat Luza skoðaði ég safn helgimuna sem presturinn Jefet (sem hugsanlega verður æðstiprestur að föðurbróður sínum látnum) hefur komið upp og sýndi mér með miklum tilþrifum. Hann sagði mér að á 19. öld hefði Samverjar verið á aðra milljón en í dag eru þeir 712. Já rétt - 712. Þeir hafa orðið fyrir ofsóknum allra nágrannaþjóðanna og smám saman týnt tölunni. Nú búa þeir flestir á toppi Gezimir fjalls við borgina Nablus í Palestínu en nokkrir í Holon í Ísrael. Samverjar teljast til Ísraelsmanna og eiga einn fulltrúa í ísraelska þinginu. Í dag er hátíð í Samverjaþorpinu því verið er að fórna lömbum guði til dýrðar eins og sagt er frá í gamla testamentinu. Það mun víst ekki vera gert annars staðar. Þorpið er ein gata með húsum á báða vegu, fallegum og snyrtilegum húsum ólíkum þeim sem arabarnir búa í niðri í borginni. Synagógan stendur frammi á hæðinni og blasir við frá Nablus. Trúarbrögð Samverja heita á ensku Samaritanism og eru afar forn, eldri en gyðingdómur. Þeir eru strangtrúaðir og trúa því að Gezerimfjall sé fyrsti staður á jörðu sem guð skapaði, að hann hafi skapað Adam úr mold fjallsins, að fjallið hafi staðið upp úr syndaflóðinu og að þar hafi Abraham fórnað syni sínum. Og ég bý við rætur þessa merkilega fjalls! Presturinn sýndi mér ættartölu Samverja frá Adam til okkar daga ég er því miður búin að gleyma hvað það voru margir ættliðir, en mig minnir að þeir hafi ekki verið nema 162 (eða var það frá Abraham?). En Samverjar geta sem sagt rekið ættir sínar mann fram af manni frá dögum Adams og Evu. Ætli Íslensk erfðagreining viti af þessu? Ég hélt áfram eftir veginum sem liggur í gegnum þorpið til að sjá hvað tæki við og áttaði mig skyndilega á því að ég var komin að landnemabyggðinni á toppi fjallsins svo að ég hraðaði mér burtu. Landnemabyggðirnar (sem sumir kalla landræningjabyggðir) eru í fjallshlíðum og á toppum fjalla í Palestínu. Mér skilst að það sé afar hagstætt fyrir Ísraela að flytja þangað, ódýrt húsnæði og ýmsar sporslur. Í Palestínu er mikill vatnsskortur en nóg er af vatni í landnemabyggðunum þar sem eru sundlaugar og grasblettir vökvaðir. Ísraelsmenn gera mikið af því að eyðileggja olífutré arabanna af því að ólífutrén - sem eru lífsbjörgin - eru ákaflega seinvaxin. Þau eru ýmist höggvin niður eða flutt í landnemabyggðirnar. Ég sé ekki ísraelska hermenn hér í Nablus. Þeir koma eftir miðnætti þegar er útgöngubann. Við, erlendu sjálfboðaliðarnir, megum ekki fara út eftir klukkan tíu á kvöldin. Ég vaknaði við sprengingar tvær fyrstu næturnar. Hermennirnir sprengja upp dyr að heimilum til að ná í fólk sem þeir eiga eitthvað vantalað við, oft unglinga í flóttamannabúðunum sem hafa kastað steinum. Annars er allt með kyrrum kjörum hér og ég hef varla kynnst öruggari stað. Við læsum ekki húsinu og skiljum verðmæti eftir á glámbekk. Á markaðnum reynir enginn að pranga né setja upp óeðlilegt verð og allir bjóða mann brosandi velkominn. Stelpurnar hópast að mér og spyrja hvað ég heiti, hvaðan ég sé og hvernig ég hafi það og flissa þegar ég reyni að svara á arabísku (en ég er byrjuð í arabískuktímum). Strákanir spyrja að því sama og vilja æfa sig í ensku. En þegar ég er komin nægilega langt í burtu kalla þeir hlægjandi ,,Fuck your mother!
Ástandið var verst hér í Nablus árin 2002 og 2006. Skólastýran í stúlknaskólanum þar sem ég kenni var áður skólastjóri í Balata flóttamannabúðunum og hún sýndi mér myndir sem teknar voru eftir innrás Ísraelsmanna í skólann í febrúar 2006. Skólinn, sem í eru um þúsund nemendur, var byggður af Sameinuðu þjóðunum fyrir örfáum árum. Hermennirnir voru þrjá daga að vinna vinnuna sína og þegar kennarar og nemendur gátu snúið aftur í skólann sinn voru borð, stólar og tölvur í maski, dónaleg orð skrifuð á töflurnar, hland í kókflöskum um allan skólann og skólalóðin útskitin. ,,Við grétum, sagði hún ,,fyrst voru heimili okkar eyðilögð og svo skólinn. Í næsta bloggi ætla ég að segja ykkur meira frá þessum skólastjóra og því merkilega starfi sem hún vinnur. Nú er ég búin að kenna í viku og finnst það rosalega skemmtilegt. Ég er að kenna myndlist í stúlknaskólanumauk þess sem ég kenni starfandi blaðamönnum og starfsfólki sérskóla fyrir fatlaða ensku. Síðastliðinn mánudag kenndi ég ensku í fyrsta skipti á ævinni og hvað haldið þið? Kennslustundin var tekin upp og klippt inn í rússneska heimildamynd!
Jæja, þá ætla ég að bregða mér í bað (sem líklega verður kalt og hálfþurrt) og taka svo rútu til il-Quids (Jerúsamlem) þar sem ég fæ að búa hjá hjónunum sem ég sagði frá í fyrsta bloggi. Ég óska ykkur gleðilegra páska frá landinu helga.
Bloggar | 9.4.2009 | 12:14 (breytt 20.4.2009 kl. 17:52) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nazar og Hamza er háskólanemar og sjálfboðaliðar hjá Project Hope. Þeir komu og sóttu mig á sunnudaginn, sögðust ætla að sýna mér tyrkneska baðið, rómverska leikhúsið, frægt kaffihús, vatnsveitu, sápu-, sælgætis- og kryddverksmiðju. Ég bjóst við dagsferð á bíl enda er Nablus 300.000 manna borg, en við fórum fótgangandi og sáum allt á þremur tímum, auk þess sem ég keypti í matinn á markaðnum. Allir þessir staðir reyndust vera á sama blettinum innan gömlu borgarmúranna. Nablus er ævaforn borg sem liggur í dalverpi á milli fjallanna Gerizim og Ebal. Borgin var endurreist árið 70 e. Kr og mörg hús eru enn í notkun sem byggð eru á 5. öld eða fyrr. En eyðileggingin er mikil og endurreisnin hæg því allt er skemmt jafnóðum og þeir staðir helst sprengdir sem mest menningargildi hafa. Nablus hefur farið illa út úr átökunum á Vesturbakkanum enda hefur andstaðan hér verið mikil. Hazma segir mér að í seinni Intifada á árunum 2002-2006 hafi húsið sem hann bjó í verið sprengt. Árið 2002 var sérlega erfitt því þá var oft útgöngubann t.d. var samfellt útgöngubann frá júlí fram í október sem aðeins var aflétt í sautján klukkutíma til að fólk gæti aflað vista. Grunnur miðbæjarins eins og hann er í dag er á milli tveggja og þriggja þúsunda ára gamall.
Ég fer ekki mjög nákvæmlega með tölur í þessu bloggi, skrifa bara það sem ég heyri og les án mikillar heimildarýni. Ég þarf því örugglega að leiðrétta eitt og annað sem ég hef skrifað því sumt misskil ég og skil betur síðar. Í síðasta bloggi rakti ég til dæmis ástæðu þess að hér í Nablus sé tyrkneskt bað til yfirráða Tyrkja á Ottómantímanum. Nú hef ég séð baðið og verið sagt að hér hafi það staðið í 2500 ár. Ég ætla í bað á þriðjudaginn því þá er það opið konum, en hina dagana aðeins körlum. Annað sem ég vil taka fram varðandi bloggið mitt er að ég ætla ekki að hafa miklar skoðanir á tildrögum ástandsins, stofnun Ísraelsríkis, ísraelskum stjórnmálaflokkum og palestínskum frelsishreyfingum, tveggja ríkja lausninni eða íhlutun Bandaríkjamanna. Hins vegar tek ég afstöðu með því að segja frá því sem ég heyri og sé á herteknu svæði.
Við fórum fyrst í krydd- og kaffiverksmiðjuna. Hún er ekki gerilsneydd og glansandi heldur meira í ætt við heimili þar sem komið hefur verið fyrir framleiðslutækjum. Þarna var líka Bedúínatjald sem var eins konar safn og þar var mér borið jurtate á meðan ég talaði við verkamennina. Þeim fannst fréttnæmt að til væri herlaust land með offramboð á landrými og töluðu svo lengi um það sín á milli að ég greip í fyrsta skipti til lítilsháttar kunnáttu minnar í arabísku og sagði jala jala (jæja, höldum áfram). Ég var leyst út með kryddblöndu í poka til að krydda með íslensku kjötsúpuna sem ég bauð sambýlisfólki mínu í gærkvöldi. Nú á ég tuttugu börn hér plús þrjú heima. Kjötkaupmennirnir á markaðnum hjuggu fyrir mig lamb í spað og ég keypti hið ólíklegasta grænmeti í súpuna. Yndislegt að kaupa í matinn hérna! Sælgætisverksmiðjan var líka hálfgerður heimilisiðnaður, en sápuverksmiðjan var lokuð. Fræga kaffihúsið var fjögur borð og samtýningur af stólum þar sem búið er til heimsins besta kunafeh, en það er eftirréttur úr heitum geitosti. Það hafði mest áhrif á mig að skoða rómverska leikhúsið, menningarverðmæti sem eru rústir einar og hver tilraun til uppbyggingar skotin niður. Á efstu bekkjum hringleikahússins eru einhvers konar skýli sem kallast mannabústaðir. Á veggjum húsanna í gamla bænum má víða sjá plaköt með myndum af ungum mönnum sem Hamza og Nazir sögðu að væru hetjur úr uppreisninni og að þeir hefðu þekkt marga þeirra. Á fátæklegum húsunum í gamla bænum má líka víða sjá leifar af eldgömlum súlum, skreytingum og áletrunum. Göturnar iða af lífi og allir eru afar vingjarnlegir, koma til mín og segja Welcome to Palestine. Útlendingar eru sannarlega velkomnir hingað.
Fyrr í gærdag fór ég með Meghan, skoskum herbergisfélaga mínum, að hitta dabka-danshóp sem í eru unglingar á aldrinum 15-20. Dabka er þjóðardans og tónlist í Palestínu, Líbanon, Sýrlandi, Jórdaníu og Írak. Dansinn er í flokki línudansa, dansaður í röð eða hring með stífan efri hluta en mikilli fótavinnu. Takturinn er einn og hálfur því hoppuð eru eitt og hálft hopp. Við áttum að fá dabkanskennslu og Meghan ætlaði að kenna nútímaballett í staðinn. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að læra hvort tveggja og sá fyrir mér þrautskipulagðan danstíma a la Jazzballettskóli Báru. Fátt hafði þó gerst þegar ég fór eftir tvo klukkutíma og Meghan sem var þar í þrjá tíma varð aldrei vör við neina æfingu hjá danshópnum. Okkur tókst þó að læra helstu dapka sporin og Meghan reyndi að kenna dansinn sem hún var búin að semja en gafst upp því gólfið var svo skítugt að það var ekki hægt að skríða á því. Hún ætlar að semja standandi dans fyrir næsta tíma og kannski kenni ég salsa. Það er svo gaman hér að allt sem maður kann er vel þegið. Ég kom hingað til að kenna myndlist, en var sagt áðan að ég ætti að kenna ensku. Hins vegar get ég gert það með öllum þeim skapandi kennsluaðferðum sem ég kann svo að þetta er bara ögrun sem ég hlakka til. Project Hope eru kanadísk samtök sem starfa þó eingöngu í Nablus. Hér eru um 20 erlendir sjálfboðaliðar í senn og álíka margir innfæddir og hóparnir vinna saman. Maroof, einn verkefnastjóranna og fyrrverandi sjúkraflutningamaður, sagði mér að um 70% íbúa Palestínu séu ungmenni og stríðið hefur leikið kynslóðina sem á að erfa landið grátt. Konan hans er ítalskur sálfræðingur sem hann kynntist þegar hún var hér í hjálparstarfi við að fara inn í hertekin hús og hugga börn og hafa ofan af fyrir þeim. Markmið samtakanna Project Hope er að gefa ungmennum Palestínu von um frið og framtíð.
Bloggar | 5.4.2009 | 11:43 (breytt 6.4.2009 kl. 14:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fartölvan er nú komin í netsamband og ég get bloggað með íslenskum bókstöfum. Reyndi í gær að semja texta án broddstafa, þ og ð - en hann varð fremur óskiljanlegur. Ég komst í bælið í Jerúsalem um fjögur í fyrrinótt eftir að hafa flogið til Tel Avív í gegnum Kaupmannanhöfn og Istanbúl. Ég lenti ekki í neinum vandræðum á Ben Gurion flugvelli því ég var svo heppin að fá að vera samferða hópi eldri borgara á leið í páskaferð undir leiðsögn Borgþórs Kjærnested.
Hópurinn fór um morguninn í skoðunarferð, en ég heimsótti vin Borgþórs sem gekk með mér um götur gömlu Jerúsalem og hjálpaði mér að finna ýmislegt sem mig vanhagaði um. Ég fór til hans á blágræna klíník sem líktist fremur þröngu heimili en tannlæknastofu. Ég komst aldrei almennilega að þjóðerni hans, en skildi að hann var grískrar ættar, fæddur í Jerúsalem, kristinn og hefur taugar til Palestínumanna. Mér skilst að ekki megi nefna nöfn þeirra opinberlega sem hafa slíkar tilhneigingar svo að ég kalla hann bara doktorinn. Það vakti kátínu hans þegar ég sagði að mig vantaði bók um Ísrael og Palestínu og hann bað mig um að biðja um slíkt rit á Upplýsingamiðstöðinni. Hann ætlaði að rifna úr hlátri þegar ég gerði það fyrir hann því maður nefnir ekki Ísrael og Palestínu í sömu andrá. Ég fékk þó að lokum Lonely Planet bók sem bæði er um Israel and the palestinian territories. Ferð okkar gekk hægt því allir heilsuðu doktornum og flestir spjölluðu við hann. Ég heyrði hann spjalla á hebresku, grísku, ensku og frönsku og hann sagðist líka tala arabísku auk þess sem hann brá fyrir sig sænsku við mig. Doktorinn er mikill áhugamaður um að láta palestínsk börn spila fótbolta, einkum stúlkur. Ég velti því fyrir mér hvort þær spili með blæjur. Borgþór kom með mörg kíló af notuðum fótboltatreyjum frá Íslandi. Doktorinn gaf mér í kveðjuskyni bleika nelliku og ég ákvað að reyna að koma henni heilli til Nablus. Konan hans, sem einnig er kristin af grískum uppruna, rekur barna- og fjölskyldumeðferðarstofnun í Bethlehem. Ég fékk lítið kver sem hún og samstarfsfólk hennar skrifaði og heitir Guided by the stars of Bethlehem A documentation of our experiences in Bethlehem during the year 2002. Þau hjón misstu sextán vikna fóstur þetta ár og fósturlátið var rakið til táragassins sem lá í loftinu í Bethlehem. Hún tileinkar því kverið öllum þeim sem misst hafa ástvini í Intifada. Af sömu ástæðum lætur doktorinn fótboltalið sín hefja alla leiki með mínútuþögn.
Þegar ég hafði kvatt doktorinn gerðist það sem alltaf gerist í erlendum borgum. Ég dreg að mér hvern einasta betlara. Ég held að ástæðan sé sú að ég er alltaf með pírð augun í sólinni sem er túlkað sem bros. Í Jerúsalem greiddi ég 20 pund fyrir brosið, líklega ætti ég frekar að fá mér sólgleraugu. Esther Azulin, áhugaverð útigangskona sagði mér sorglega sögu mína og bað mig svo um peninga. Þar sem ég var einmitt á leiðinni að taka út mína fyrstu shekels átti ég bara pund. Ég veit ekki hvað gerðist en allt í einu var hún komin með 20 pund í hendurnar, en ég með heimilisfangið hennar og óskir um frekari fjárstuðning minn og íslensku þjóðarinnar. Ég þurfti að ganga með bakpokann nokkurn spotta frá Jaffa-hliðinu að umferðarmiðstöðinni svo að merking orðins far-angur rifjaðist upp fyrir mér. Á leiðinni hitti ég hálfan tug rútubílstjóra sem buðu mér ferð til Ramalla fyrir allt að 200 shekels. Sem betur fer hafði ég kynnt mér verðið og fann að lokum réttu rúturnar, þær sem selja ferðina á 6 shekela. Ég stóð í nær tvo tíma á leiðinni til Ramalla, enginn stóð upp fyrir aldraði konu með bakpoka. En í Ramalla fann ég fyrst fyrir hjálpseminni sem ég hef skynjað síðan. Fólk lagði lykkju á leið sína til að sýna mér hvaða rútu ég ætti að taka og maður nokkur lagði líf sitt í hættu við að koma mér í rútuna til Nablus því það var fimmtudagssíðdegi, hvíldardagurinn framundan og rúturnar að fyllast. Hann náði fyrir mig í handskrifað númer og hjálpaði mér að hlaupa með pokann að hverri rútu sem nálgaðist og veifa miðanum og við lá að hann træðist undir þegar hann banaði mér leið í gegnum þvöguna. Nellikan komst aldrei til Nablus því að ég henti því sem eftir var af henni til hjálparhellunnar minnar.
Sjálf komst ég heilu og höldnu til Nablus og meira að segja án þess að þurfa að rekja ástæður ferða minna á neinum checkpoint. Á leiðinni til Jerúsamleg kölluðu eldri borgarnir mig stelpuna, en í kommúninni sem ég bý í hér í Nablus verð ég örugglega kölluð kellingin því allir eru á aldur við yngri börnin mín. En þau eru fín, gáfu mér að borða og buðu mér með sér í tyrkneskt bað sem ég var of þreytt til að þiggja. Vesturbakkinn, sem á dögum biblíunnar hét Júdea og Samaría, var undir Ottómanveldinu á margar aldir og því er hér tyrkneskt bað sem mun vera helsta aðdráttarafl Nablus sem annars er þekkt fyrir ólífuolíu og sápur. Og hér í Galelíu var brunnur Jakobs þar sem Jesús bað samversku konuna að gefa sér og drekka. Tá segði hin samverska kvinnan við Hann: Hvussu ber tað til, at Tú, sem ert Jødi, biður meg, samverska kvinnu, um nakað at drekka? Tí Jødar koma ikki saman við Samverjar. Á þessari biblíutilvitnun sést að þegar á þessum tíma kom fólki á þessum slóðum ekki heldur vel saman (ég get ekki stillt mig um að hafa tilvitnunina á færeysku). Í dag er hvíldardagur múslima, á morgun gyðinga, á sunnudögum kristinna og mánudaginn enn einnar þjóðar sem býr hér og ég man ekki hvað heitir. Þetta er sko fjölmenning í lagi. Við sjálfboðaliðarnir eigum frí á föstudögum og laugardögum svo að ég byrja ekki að vinna fyrr en á sunnudag. Á morgun ætla ég að segja ykkur frá Nablus, húsinu sem ég bý í og Project Hope.
Bloggar | 3.4.2009 | 17:02 (breytt 6.4.2009 kl. 08:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)