Balata flottamannabúðirnar

Jæja, þá er ég farin að kenna í Balata. Þar er allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér því Balata er í rauninni bara þorp í útjarðri borgarinnar. Það eru um 50 palestínskar flóttamannabúðir á Vesturbakkanum, Gaza og í Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon, en Balatabúðirnar í Nablus er stærstar. Við aðalinngang þeirra er lítil og falleg kristin kirkja sem byggð er utan um brunn Jakobs þar sem samverska konan brynnti Jesú. Ég drakk úr honum um daginn á leiðinni í fyrstu heimsókn mína í búðirnar (og um daginn, reyndar á páskadag sem er pálmasunnudagur grísk-kaþólskra, kyssti ég steininn sem Jesús sat á þegar hann talaði við Mörtu og Maríu. Hann er í grísk-ortódox kirkju í Betel rétt fyrir utan Jerúsalem, en þangað fór ég með Nick og frönskumælandi presti. Til að komast keyrandi frá heimili Nicks í miðborg Jerúsalem þurfti hann að bakka í gegnum hálft hverfið, talandi ensku við mig, frönsku við prestinn, grísku við konu sem var með okkur og hebresku og arabísku til skiptis í símann.) Ég fékk svo að heilsa öllum þessum virðulega grískaþólsku prestum með handabandi, borða grískan mat í safnaðarheimilinu, keyra framhjá Sinai-eyðimörkinni og stærstu landnemdabyggðunum sem eru rétt fyrir utan Jerúsalem.

 

En aftur til Balata. Talið er að um 30.000 manns búi á þessu tveggja ferkílómetra afgirta svæði. Þar hafa kynslóðir búið hver fram af annarri síðan arabar misstu lönd sín við stofnun Ísraelsríkis 1948 og þeir sem þar búa eiga litla möguleika á að komast þaðan. Þar er heldur fátæklegt um að litast, þar sér maður skítug og berfætt börn sem ég hef ekki séð annars staðar, geitur inni í íbúðahúsum og hana spígsporandi um göturnar og ég fannst ég verða vör við meiri tortryggni í minn garð þar annars staðar. Túlkurinn minn, hún Hiba sem margir halda að sé útlendingur sagði mér að hún heyrði fólk tala um að við værum gyðingar. En það er gaman að kenna í stúlknaskólanum, sem rekinn er af Sameinuðu þjóðunum eins og allmargir aðrir grunnskólar. Skólinn (sem ég hef lýst áður) er tiltölulega nýr og lítt farinn að láta á sjá. Hann er á þremur hæðum og byggður í kringum steypta skólalóð og hávaðinn er eins og í fuglabjargi þegar þúsund stúlkur streyma út á lóðina. Ég verð að viðurkenna að byggingin minnir mig svolítið á fangelsi, en andinn er allt annar (segi ég eins og ég hafi heimsótt þau mörg fangelsin). Á kennarastofunni hitti ég allar þessar stórkostlegu konur, ég er svo hrifin af palestínskum konum. Blæjuklæddum og baráttuglöðum. Ein er sérstaklega áhugaverð, kannski af því að hún talar besta ensku. Alveg hreint ótrúlega kona. Talar ensku eins og hún hafi aldrei gert annað, en ekki bara það heldur reifar hún umræðuefnin af þekkingu viðreistrar manneskju þó að hún hafi aðeins komið til Jórdaníu og Tyrklands. Hún fylgist með því sem er að gerast í heiminum, bæði í stjórnmálum og hugsunarhætti, en heldur innblásnar ræður um ágæti íslam og ég er farin að skilja múslima svo miklu betur. Það er eitthvað svo heillandi við sakleysi þeirra og siðgæði sem við gætum lært mikið af. Allah býður þeim að vera góðar manneskjur, að gera ekki flugu mein, ekki einu sinni fella tré. Að deila með öðrum, að finna til með öðrum, að vera trúr og heill og hreinn í hugsun. Ég er ekki í trúboði, en eftir þessa stuttu reynslu af því að deila kjörum með múslimum (ég hef reyndar áður farið til múslímskra landa án þess að frelsast), finnst mér svo margt gott í islam. En eftir að ég kom hingað er ég enn svartsýnni á að til sé lausn á deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég spurði yfirkennarann þegar hún keyrði mig heim um daginn hvort hún sæi einhverja lausn og hún sagði að eina lausnin væri nýir leiðtogar beggja vegna. Sumir hér trúa á tveggja ríkja lausnina, en margir gera það ekki. Segjast ekki getið búið við hlið óvina sinn og tekið í hönd þeirra sem drepið hafa ástvini þeirra. Skólastjórinn hefur líka mikla útgeislun, pínulítil en sterk í lillabláu síðu kápunni sinni með brúna blæju. Hún mun vera tónskáld og semur lög sem nemendur syngja við hvert tækifæri. Mér er sagt að hvergi séu eins fjölmennir bekkir og í Palestínu. Ég lenti í því í Banat Nablus að samþykkja að hafa heilan bekk, en komst ekki að því fyrr en ég mætti á svæðið að í heilum bekk eru fjörutíu nemendur. Ég sat uppi með fjörutíu ellefu ára stelpur sem ég þurfti án túlks að láta mála með akrýllitum og bíða á meðan liturinn þornaði. Það reddaðist þannig að ég lét helminginn mála og fór út með hinn helminginn og kenndi með látbragðinu einu íslenskan leik sem heitir blikkleikur og ég veit ekki hvort fólk kann lengur. Hér reyndir svo sannarlega á sveigjaleika manns sem kennara og hugmyndaflug. Annars er aginn hér mikill, en krakkarnir opnir, skemmtilegir og skapandi og hanga utan í mér, gefa mér sælgætið sitt og snakkið (sem er skólanestið þeirra enda er tannheilsa ekki góð), slást um að fá að leiða mig. Í gær gerði ég svolítið af mér – reyndar í fyrsta skipti því ég er búin að passa rosalega vel að hegða mér fullkomlega fyrim augun Allah - ég dansaði í kennslustofunni. Við vorum að klára að ganga frá (já, það er eitt, börnin ganga óumbeðin frá og fara mjög vel með alla hluti, ekki síst vatnið) og fjörutíu stelpur höfðu hópast í kringum mig og sumar byrjuðu að klappa takt og ein afar glæsileg hávaxin unglingsstúlka sýndi tilburði til að byrja að dansa svo að ég tók þessi örfáu spor sem ég kann í magadansi við afar mikla hrifningu. En Hiba var ekki ánægð og það hafði spurst á niður á kennarastofu að ég hefði dansað. Ég hélt að það væri í lagi að dansa þar sem bara voru stelpur, en það má ekki dansa í kennslustofu í Balata. Yfirsjón mín var þó fyrirgefanleg og ekki talin eins slæm og þegar nemendur spurðu amerískan sjálfboðaliða hvernig kristnir menn bæðust fyrir. Það fréttist að sjálboðaliði frá Project Hope hefði verið í kristniboði og alllangur tími leið þar til þeim var aftur aftur inn í skóla í Balata. Maður á erfitt með að skilja samskipti kynjanna, en virðir bara þá siði sem hér gilda. Maður fær líka oft ansi góðar spurningar eins og ,,fyrst skilnaðir eru svona algengir á Vesturlöndum hvers vegna eru þeir alltaf jafn sárir? “ og ,,fyrst karlmenn á Vesturlöndum þykjast sýna konunum virðingu með því að líta á þær sem jafninga sína hvers vegna eru nauðganir þá svona algengar?”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Björg Árnadóttir
Björg Árnadóttir
Sjálfstætt starfandi í ReykjavíkurAkademíunni.Myndlistar- og ritlistarkennari, blaðamaður og með meistarapróf í menntunarfræðum.

Færsluflokkar

Júlí 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband