Í Betlehem er guð á hverju götuhorni eins og í Jerúsalem. Hér hófst þetta allt; kristni, gyðingdómur og íslam, trúarbrögð sem öll spruttu af sama meiði. ,,Betlehem er besti staður í heim því Jesús kaus að fæðast hér, sagði töskuberinn á hótelinu. Ég veit ekki af hverju hann fylgdi mér alla leið að herberginu því ég var bara með lítinn bakpoka, líklega af því að það tíðkast á fínum hótelinu. Ég leyfði mér þann munað að gista á fínu hóteli. Hafði ætlað að ganga á milli hótela og kanna verð, en þegar til kom krafðist leigubílstjórinn þess að ég vissi hvert ég ætlaði og Intercontinental var eina nafnið sem ég mundi. Það var líka orðið áliðið og ég hafði heyrt sögusagnir um að eigi væri alltaf rúm fyrir fólk í gistihúsum í Betlehem.
Borðaði á hótelinu ótrúlega vondan vestrænan kvöldmat fyrir svipað verð og ég eyði í mat á viku í Nablus. Gaf mig á tal við þjóninn sem endaði með að hann bauðst til að sýna mér Betlehem og fara með mig í kaffi til föður síns, eiginkvenna hans og barna. Morguninn eftir fórumst við á mis og ég hélt að þetta hefði verið venjulegt kurteisissnakk svo að ég tók service- bíl að Fæðingarkirkjunni. Service bílar eru sérmerktir leigubílar sem keyra vissar leiðir og taka upp fólk á leiðinni. Ég held að þetta væri frábær lausn á almenningssamgöngum í Reykjavík. Fyrir utan kirkjuna rakst ég á mann sem ráðlagði mér að fara ekki inn strax heldur hinkra í smástund eftir kínverska utanríkisráðherranum. Hann benti mér líka á borgarstjóra Betlehem og grísk-kaþólskan æðstaprest sem biðu komu ráðherrans. Þegar svörtu lúxusbílana bar að garði hálfpartinn ýtti þessi nýi vinur mér inn í þvögu ljósmyndara og ég smellti af í gríð og erg á meðan lögreglan hélt forvitnum túristum í skefjum. Ef einhvern vantar myndir af kínverska utanríkisráðherranum og borgarstjóranum í Betlehem er ég aflögufær.
Inni í kirkjunni mætti ég þjóninum Fadi sem hafði komið til að leita að mér. Hann sýndi mér kirkjuna og reyndi á sinni aumu ensku að segja mér kristnisöguna en var þó aðallega upptekin af hlutverki Fæðingarkirkjunni í Intifada árið 2002 þegar 200 Palestínumenn dvöldu í kirkjunni í 39 daga undir vernd kristinna. Sambúð múslima og kristinna Araba í Betlehem er góð, en Ísraelsmenn hafa reist ótrúlega ljótan múr í þessi fallegu borg. Fadi sagði mér að innan hans væru höfuðstöðvar hersins og synagóga. Eftir kirkjuferðina fórum við á kaffihús, gríðarstóra Coffee shop þar sem vinir Fadi vinna og arabískir karlmenn eyða tímanum sem margir virðast eiga ofgnótt af. Á kaffihúsum er drukkið kaffi og reyktar vatnspípur, sem er mjög félagsleg athöfn. Þó að ég hafi síðast reynt að reykja sautján ára ákvað ég að prófa argíla með epla- og myntubragði. Ég veit ekki almennilega hvað er í pípunum, en það er alla vega skárra en tóbak á bragðið. Fadi segist fara á kaffihúsið á hverjum degi til að drekka kaffi, reykja argíla og hitta fólk. Hann og vinir hans segja mér að lífið sé frekar tilbreytingarlaust og felist í því að vinna og sofa og fara svo aftur að vinna og sofa. Þeir telja sig þó heppna að hafa atvinnu því atvinnuleysi í Palestínu er um 50% og 70% ef konurnar eru taldar með. Mér sýnist að þessi 30% sem hafa vinnu séu aðallega smákaupmenn því verslun er ótrúlega mikil hér. Fadi er barþjónn að aðalstarfi þó að hann þjóni líka í sal. Hann hefur unnið á hótelinu í þrjú ár en hefur ekki enn sagt föður sínum að hann snerti vínflöskur í vinnunni því föður hans myndi þykja atvinnuleysið betra. Fadi, eins og allir aðrir sem ég hitti, þyrstir í að kynnast umheiminum. Á meðan hér var ferðafrelsi fór hann með foreldrum sínum til Jórdaníu en man ekki eftir þeirri ferð. Hann fær ekki að fara til Jerúsalem sem er í átta kílómetra fjarlægð, en hefur farið til Jeríkó og Hebron. Í sumar býðst honum að fara í vikuferð til Þýskaland með mótmælendakirkjunni sem hann starfar með þó að hann sé múslimi. Svíþjóð er samt fyrirheitna landið, þangað vill hann flytja. Sænskir túristar hafa sagt honum frá velferðarkerfinu og að það sé ekkert dýrt að búa í Svíþjóð. Ég reyni að útskýra fyrir honum að verð séu há en það séu launin líka, en hann skildi ekki afstæði verðslag frekar en nemendur mínir sem spyrja mig hvað allar eigur mínar kosta og geta ekki skilið þessi háu verð. Eftir vatnspípuna var ferðinni heitið í Dheisheh flóttamannabúðirnar að hitta fjölskyldu Fadis. Íbúar Dheisheh búðanna, sem eru stærstar af þrennum flóttamannabúðum í Betlehem, eru um 5000. Á húsi Fadis býr faðirinn á neðstu hæðinni ásamt ungri konu sinni og nýfæddum syni (hvað er þetta með Betlehem og nýfædda drengi?) Þar hittum við fyrir móður Fadi með nýfætt barnið sem hún virtist afar stolt af. Hún býr á efri hæð hússins ásamt þeim börnum sem enn eru heima. Hún átti tólf börn með eiginmanni sínum en svo gerðu þau samkomulag sín á milli um að hann fengi sér aðra eiginkonu. Hún var líklega orðin þreytt á barneignum, en Palestínumenn eignast mörg börn, kannski af því að afföll eru mikil. Elsti bróðirinn býr í næsta húsi með sívaxandi barnaskara sinn. Sá næstelsti er í frelsishetja í fangelsi þar sem hann verður næstu fimm hundruð árin, segir Fadi stoltur. Það er fánaskreytt mynd af honum á aðaltorginu ásamt þrjátíu öðrum frelsishetjum. Ein dóttirin var skotin og sjálfur var Fadi handtekinn sem ungur drengur fyrir að kasta steinum í skriðdreka og fékk að dúsa í fangelsi í viku. Hann benti mér á billjardstofuna þar sem hermennirnir fundu hann, en hann hafði þá ekki sofið heima sjá sér síðan hann framdi ódæðið. Leigubílstjóri í Nablus sagði mér að hann hefði setið í fangelsi í þrjú ár fyrir litlar sakir en þar hafði hann lært ensku. Ég hef lesið að fangelsin séu einskonar háskólar því fangar taka höndum saman um að mennta hver annan. Þessi þjóð er ótrúlega vel menntuð. Mér er sagt að 70% þjóðarinnar hafi háskólamenntun, en því trúi ég nú varla, líklega hafa þeir meint 17%. En nemendur mínir hafa margir meistara-og jafnvel doktorsgráðu. Ég hitti um daginn unga konu sem var með meistarapróf í verkfræði og arkitektúr. Hún hló þegar ég spurði hana hvort hún ynni við fagið. Það er skrítin tilfinning að ganga um nýbyggðan háskólann í Nablus og sjá þúsundir ungmenna sem leggja á sig langt og strangt nám án nokkurrar vonar um vinnu. ,,En það er hægt að taka allt frá okkur nema menntunina, segir fólk. Eftir heimsóknina til fjölskyldu Fadis, þar sem ég drakk dísætt te þar til það flóði út úr eyrunum á mér, skoðuðum við allar þrjár flóttamannabúðirnar og ég tók graffíti-myndir. Það er pólitískt veggjakrot út um alla borgina, en sterkastar eru myndir óþekkta listamannsins Banksy sem hann gerði undir yfirskriftinni Let us spray. Nokkrar þeirra má sjá á netinu með því að gúgla Banksy og Let us spray. Í minnstu flóttamannabúðunum, sem eru í miðborg Betlehem, var fjöldi borgarstarfsmanna upptekinn við að flikka upp á umhverfið því páfinn ætlar að heiðra búðirnar með heimsókn sinni þegar hann kemur til Betlehem í maí.
Eftir að hafa þakkað Fadi fyrir fylgdina fór ég aftur í Fæðingarkirkjuna. Það er magnað að standa frammi fyrir fæðingarstað frelsarans sérstaklega þegar það gerist eins skyndilega og í mínum tilviki. Ég hafði elt enska, þýska og franska leiðsögumenn til skiptis og skoðað með þeim altarið og gamla mósaíkgólfið sem fannst fyrir sjötíu árum og er úr þeim minnstu mósaíkflísum sem ég hef augum litið. Ég nennti ekki að standa í fjórfaldri fimmtíu metra röð til að sjá fæðingarstaðinn og sagði við sjálfa mig að það væri hvort sem er ekkert að marka svona eldgamlar heimildir. En þar sem ég ráfaði um kirkjuna rakst ég á tíu manna biðröð arbaba sem ég ákvað að sameinast og huldi hár mitt til öryggis. Þetta reyndist vera hinn inngangurinn og ég gekk á móti straumnum að fæðingarstað frelsara míns. Allah hefur fylgt mér í þessari ferð og lagt allt upp í hendurnar á mér. Ég vona að bæði hann og guð verði með mér á Ben Gurion því það mun ekki vera auðvelt að komast úr landi. Og eftir að hafa séð fæðingarstaðinn fór ég að hugsa um gildi þessara gömlu heimilda sem er gríðarlegt. Fæðingarkirkjan er til dæmis reist aðeins 300 árum eftir fæðingu Jesús. Hvort sem maður trúir á upprisu holdsins og eilíft líf er varla hægt að neita því að atburðir biblíunnar eru að miklu leyti sannsögulegir og að þetta fólk var til. Um kvöldið fyldist ég með brúðkaupsveislu á Intercontinental. Það voru þrír myndatökumenn í salnum og pródúsent sem sat frammi sá um myndblöndum. Ég fékk að sitja hjá honum um stund og fylgjast með veislunni. Brúðguminn skar tertuna með sverði.
Daginn eftir var ég fjóra og hálfan tíma þessa um það bil 70 kílómetra leið heim til Nablus. Það hvellsprakk á rútunni á miklum hraða og svo vorum við stoppuð við alla checkpointa og við biðum tímunum saman á meðan leitað var í farangri. Amerískur ferðafélagi minn sem kennir ensku fyrir önnur sjálfboðaliðasamtök í Nablus sagði mér að í fyrranótt hefðu hermenn í leit að grjótkastara sparkað upp dyrunum hjá henni. Í morgun las ég í fréttunum að ísraelsk kona gift Palestínumanni sem gekk með fimmta barn þeirra hjóna hefði verið handtekin og ekki leyft að heimsækja ættingja eiginmanns síns í Nablus. Svona er lífið í Palestínu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.