UN Banat Nablus er stúlknaskóli rekinn (eða að minnsta kosti styrktur) af Sameinuðu þjóðunum. Þar gerði ég friðarfiðrildi með einum 80 stúlkum í þremur bekkjardeildum. Auk þess sýndi ég einni bekkjardeild myndir frá því merkilega landi þaðan sem ég kem og þar sem nóg er af vatni og landrými og ekki hefur verið barist með vopnum í mörg hundruð ár. Ég hélt líka glærukynningu um Ísland fyrir blaðamennina sem ég kenni ensku og þegar ég sagði þeim frá her- og vopnleysinu sló þögn á mannskapinn þar til einn spurði: ,,Vita Ísraelsmenn af þessu?
Skólastýran í UN Banat (stúlkur) Nablus er kona að nálgast eftirlaunaaldur sem stýrði í fjöldamörg ár einum skólanna í Balaton-flóttamannabúðunum. Hún er ákaflega mikil hugsjónakona og við áttum góðar stundir saman á skrifstofunni hennar þar sem ég sagði mér frá gildum sínum og hugsjónum í skólastarfi. Um þessar mundir stýrir hún gæðastarfi meðal kennaranna í skólanum sínum. Tilgangurinn er að láta kennarana orða gildi skólans og að því loknum ætlar hún að láta semja skólasöng sem felur í sér gildin. Ég stakk upp á því að hún skreytti líka hlið skólans með gildnunum og kannski fellur hún fyrir þeirra hugmynd (ég hefði boðist til að gera það ef ég hefði stoppað lengur). En skólasöngurinn verður líklega sunginn á eftir þjóðsöngnum sem alltaf er sunginn í skólunum á morgnana og maður heyrir hljóma um allt, stundum vakna ég við að strákarnir í skólanum í grennd við Project Hope syngja þjóðsönginn (ef ég hef ekki þegar vaknað við sprengingarnar í flóttamannabúðunum, hroturnar í herbergisfélögunum, hanagalið eða bænakallið).
Við erum aldrei einar á skrifstofunni hennar því hún sinnir ótal erindum á meðan hún skenkir mér dísætt te og pítubrauð sem hún bakar sjálf og talar um menntamál. Skrifstofan er full af nemendum, kennurum, foreldrum og embættismönnum og ég hef líka hitt dóttur hinnar og barnabörn og hún sinnir öllum erindinum í einu og kvartar ekki undan aðstöðuleysi. Sonur hennar sem býr í Ameríku sendi henni fyrir nokkrum árum eintak af einni bóka Howard Gardners, sem hún lagði mikla vinnu í að lesa en enskan hennar er ekkert alltof góð. En hún hreifst svo af hugmyndum um fjölgreind að hún hóf að móta allt sitt skólastarf í anda Gardners, fyrst í Balata og svo í Banat Nablus. Þegar ég spyr hana hvort margir vinni á þessum nótum í Palestínu segir hún að ýmsir viti af þessum hugmyndum og sæki á grunnmið, en hún sé sú eina sem sækir á djúpið. Ég spurði síðar sérkennarana sem ég kenni ensku hvort þeir þekktu til fjölgreindarkenningarinnar. Þegar í ljós kom að þeir gerðu það ekki lagði ég mikla vinnu í að útbúa glærukynningu um The Theory of Multiple Intelligences á myndmáli og ensku fyrir byrjendur.
Skólastýran sýnir mér kannanir sem hún hefur sjálf útbúið til að meta námslega styrk- og veikleika nemenda sinna. Nemendur meta sig sjálfir auk þess sem kennarar og foreldrar gera það og síðan er haft samráð um hvernig megi vinna úr niðurstöðunum. Hún verður hissa þegar ég spyr hvort foreldrar taki almennt þátt í þessu og segir mér með þeim innblásna svip og ákveðna rómi sem einkennir ofurhuga að auðvitað séu allir með af því að framtíð barnanna sé í húfi. Mér hefur skilist að fjölskyldubönd séu afar sterk hér og börn mikils metin. Blaðamennirnir segja mér að það þyki lítið að eiga þrjú börn eins og ég. Fimm til sex séu normið en því fleiri börn því meiri blessun. ,,We are like rabbits segja þeir og hlægja. Þeir sem eru giftir eiga fjögur til sex börn, en hinir ógiftu eru búnir að ákveða hvað börnin þeirra eiga að heita. Í hópnum er þó einn sem er ekki á þeim buxunum að mynda fjölskyldu (sem er reyndar sá myndarlegasti) en hinir hafa nokkrar áhyggjur af geðheilsu hans. Þeir segja mér líka frá konu í Nablus sem eignaðist 24 börn og átti í stökustu vandræðum með að muna nöfnin þeirra. Og íslensk stelpa, hún María sem rekur snyrtistofuna Amiru í Skeifunni, hefur sagt mér frá því að þegar hún sem unglingur bjó í Ramallah hafi henni fundist svo gaman af því að þá var fjölskyldan alltaf saman á kvöldin.
Stelpurnar í Banat Nablus eru yndislegar. Þær eru allt í senn skemmtilegar, skapandi, forvitnar, hlýðnar og agaðar. Þær koma unnvörpum til mín, faðma mig og jafnvel kyssa, segjast elska mig og verkefnin sem þær fá að vinna hjá mér. Það er ögrun að standa frammi fyrir 40 stúlkna bekk sem ekki skilur nema brotabrotabrot af því sem maður segir, að hafa ekki þann efnivið og verkfæri sem maður telur sig vanta en allt gengur samt sem áður upp! Nú er fiðrildaverkefninu lokið og myndin komin upp á vegg í stigagangi UN Banat Nablus. Ég er stolt af því að áttatíu stelpur tóku þátt í þessu friðarverkefni. Glöðust var ég samt þegar ég kom einn daginn til að taka mynd af verkinu og sá stelpu sem virtist svolítið á eftir (og hinar stelpurnar voru reyndar vondar við og sögðu mér með táknmáli að væri heimsk) standa við myndina og grandskoða fiðrildið sitt.
Eldri færslur
Af mbl.is
Erlent
- Ísrael gerir árásir á Húta í Jemen
- Dalai Lama níræður: Vill verða 130 ára
- Vonar að fundurinn með Trump hjálpi til með vopnahlé
- Kapphlaup við tímann í Texas
- Það eru ekki mannréttindi að búa í Svíþjóð
- Rússar segjast hafa náð tveimur þorpum á sitt vald
- Telja sig hafa handtekið skipuleggjanda tilræðisins
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.