Konur og klæðnaður

Ég er búin að eignast blæju sem ég nota stundum. Ástæða þess að ég eignaðist hana er sú að ég var spyrja konurnar sem ég kenni ensku í sérskóla fyrir fötluð börn hvers vegna sumar þeirra bæru higab og aðrar ekki og umræðurnar enduðu með að ég fékk að prófa blæju einnar. Reyndar nota konur hér ekki eiginlegar blæjur heldur tvo strokka sem líkjast því sem við köllum buff. Annar þeirra hylur hárið og hinn hálsinn. Þær féllu í stafi yfir því hvað blæjan klæddi mig vel og reyndar dregur hún fram andlitsdrættina. Ég spurði hvort ég mætti vera með blæjuna í kennslustundinni, sem olli uppnámi og háværum umræðum í hópnum. Ég hélt fyrst að þeim þætti ekki viðeigandi að ég gengi með blæjuna en komast svo að því að von væri á karlmanni í húsið sem ekki mætti sjá hár þeirrar sem átti blæjuna. Næsta dag færðu þær mér hins vegar blæju að gjöf og set ég hana alltaf upp áður en ég fer til þeirra. Mér virðist þær líta á það sem viðurkenningu mína á siðum þeirra og menningu.  Hér má sjá blæjulausar konur í vestrænum fötum og konur í búrkum sem hylja meira að segja augun – og allt þar á milli. Langflestar hafa þó þessa strokka um hárið og klæðast fallegum kuflum sem eru mjög klæðilegir og hylja vankanta í sköpun guðs. Þegar ég dáðist að kufli Therwu, sem er einskonar kennslustjóri hérna hjá Project Hope, bauðst hún til að fara með mér að kaupa mér kufl, en þó ekki alveg strax af því að sumartískan er ekki komin til Nablus. Margar konur eru afar glæsilegar í kuflum sínum og blæjum og þessi klæðnaður virðist líka hentugur hér um slóðir. Konur sem klæða sig á vestrænan máta láta þó aldrei sést í hold nema á höndum og í andliti. Ég þarf að ganga í fötum sem ná fram yfir ökkla og úlnliði. Það truflar mig ekkert að vera dúðuð í hitanum og ég hef tekið eftir að manni er svosem ekki heitara í fötum sem hylja heldur en í stuttbuxum og ermalausum bol. Það eina sem veldur mér vanda er ósjálfráð hreyfing mín að draga ermar upp að olnbogum.   Í gær mætti  ég til kvennanna í svörtu þröngu flauelsbuxunum mínum og varð mjög hissa á því að allar höfðu að orði að þeim líkaði buxurnar mínar ,,like pantalones, very beautiful“. Ég hafði oft komið í þessum buxum ( ég kenni þeim á hverjum degi) og aldrei höfðu þær minnst á þetta áður.  Svo sögðu þær ,,much beautiful than sirwal“ og ég áttaði mig á því að þær höfðu ekki verið ánægðar með klæðnað minn daginn áður en þá var ég í buxum með síðu klofi sem ég hafði keypt í Tyrklandi. Ég hef einhvern tíma heyrt að einhvers staðar í Arabalöndum klæðist karlmenn sirwal af því að múslimar trúi því að karlmaður muni fæða næsta spámann og því sé betra að vera við öllu búinn og klæðast buxum sem taka á móti barninu. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það, en konunum mínum líkaði ekki að ég klæddist sirwal.  Blaðamennirnir sem ég kenni voru líka ánægður með mig með blæjuna og svo hef ég prófað að ganga  með hana um göturnar og tek eftir að ég vek mun minni eftirtekt þannig. Velti því jafnvel fyrir mér að bera hana næst þegar ég fer til Jerúsalem til að geta gengið óáreitt um markaðinn og forðast ástarjátningar og bónorð sem eru þreytandi til lengdar. Ég skynja svolítið á eigin skinni tilgang blæjunnar. Skil samt ekki alveg tilgang blæjunnar sem ég ungu stúlkurnar sem ég sá í Tyrklandi í haust báru því fötin þeirra voru flegin og þröng og bert á milli.  Ég er búin að kynnast talsvert mörgum konum  hér og ég upplifi þær ekki sem kúgaðar (sem stafar kannski af því að ég hitti ekki þann hóp).  Mér finnst þær fyrst og fremst vera kúgaðar af hersetunni og tala mjög mikið um bölvun hernámsins og nauðsyn andspyrnunnar, en tala aldrei um að þær séu kúgaðar af karlkyninu jafnvel þó að ég reyni að fiska eftir því.  Þær konur sem ég hitti eru sterkar og ákveðnar og afar skemmtilegar bæði með og án blæju.   Mig langar til að vera betur læs á tungumál klæðaburðarins   skilja hvaða skilaboð fólk sendir með klæðnaði sínum. Ég var sérstaklega upptekin af þessu í Jerúsamleg um páskana þar sem ég sá hinn fjölbreytilegasta  hóp homo sapiens sem ég hef nokkurn tíma augum litið og allir báru einkennisbúninga síns menningarkima.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Björg Árnadóttir
Björg Árnadóttir
Sjálfstætt starfandi í ReykjavíkurAkademíunni.Myndlistar- og ritlistarkennari, blaðamaður og með meistarapróf í menntunarfræðum.

Færsluflokkar

Júlí 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband