Samverjar, Ísraelar og Palestínumenn - og páskakveðjur frá landinu helga

 Eftir kennslu í gær tók ég leigubíl til Kyriat Luza, Samverjaþorpins á toppi Gezerim fjalls. Ég tók ekki með mér skilríki af því að ég áttaði mig ekki á því að þar væri varðturn (chechpoint). En velvopnaður ísraelskur unglingur sýndi miskunnsemi og hleypti mér gegnum hliðið skilríkjalausri. Mér er sagt að það hafi verið kraftaverk og nú velt ég fyrir mér  hvort ég geti líka gengið á vatni. Að öllum líkindum mun ég finna fyrir hinu þekkta Jerúsalem syndrómi þegar ég kem þangað á eftir. Það lýsir sér þannig að manni finnst maður vera frelsarinn.   

 

 

Samverjar eru ævaforn þjóð. Í Kyriat Luza skoðaði ég safn helgimuna sem presturinn Jefet (sem hugsanlega verður æðstiprestur að föðurbróður sínum látnum) hefur komið upp og sýndi mér með miklum tilþrifum. Hann sagði mér að á 19. öld hefði Samverjar verið á aðra milljón en í dag eru þeir 712. Já rétt - 712. Þeir hafa orðið fyrir ofsóknum allra nágrannaþjóðanna og smám saman týnt tölunni. Nú búa þeir flestir á toppi Gezimir fjalls við borgina Nablus í Palestínu en nokkrir í Holon í Ísrael. Samverjar teljast til Ísraelsmanna og eiga einn fulltrúa í ísraelska þinginu. Í dag er hátíð í Samverjaþorpinu því verið er að fórna lömbum guði til dýrðar eins og sagt er frá í gamla testamentinu. Það mun víst ekki vera gert annars staðar.  Þorpið er ein gata með húsum á báða vegu, fallegum og snyrtilegum húsum ólíkum þeim sem arabarnir búa í niðri í borginni. Synagógan stendur frammi á hæðinni og blasir við frá Nablus. Trúarbrögð Samverja heita á ensku Samaritanism og eru afar forn, eldri en gyðingdómur. Þeir eru strangtrúaðir og trúa því að Gezerimfjall sé fyrsti staður á jörðu sem guð skapaði, að hann hafi skapað Adam úr mold fjallsins, að fjallið hafi staðið upp úr syndaflóðinu og að þar hafi Abraham fórnað syni sínum. Og ég bý við rætur þessa merkilega fjalls! Presturinn sýndi mér ættartölu Samverja frá Adam til okkar daga – ég er því miður búin að gleyma hvað það voru margir ættliðir, en mig minnir að þeir hafi ekki verið nema 162 (eða var það frá Abraham?). En Samverjar geta sem sagt rekið ættir sínar mann fram af manni frá dögum Adams og Evu. Ætli Íslensk erfðagreining viti af þessu?      Ég hélt áfram eftir veginum sem liggur í gegnum þorpið til að sjá hvað tæki við og áttaði mig skyndilega á því að ég var komin að landnemabyggðinni á toppi fjallsins svo að ég hraðaði mér burtu. Landnemabyggðirnar (sem sumir kalla landræningjabyggðir) eru í fjallshlíðum og á toppum fjalla í Palestínu. Mér skilst að það sé afar hagstætt fyrir Ísraela að flytja þangað, ódýrt húsnæði og ýmsar sporslur. Í Palestínu er mikill vatnsskortur en nóg er af vatni í landnemabyggðunum þar sem eru sundlaugar og grasblettir vökvaðir. Ísraelsmenn gera mikið af því að eyðileggja olífutré arabanna af því að ólífutrén -  sem eru lífsbjörgin - eru ákaflega seinvaxin. Þau eru ýmist höggvin niður eða flutt í landnemabyggðirnar.  Ég sé ekki ísraelska hermenn hér í Nablus. Þeir koma eftir miðnætti þegar er útgöngubann. Við, erlendu sjálfboðaliðarnir, megum ekki fara út eftir klukkan tíu á kvöldin. Ég vaknaði við sprengingar tvær fyrstu næturnar. Hermennirnir sprengja upp dyr að heimilum til að ná í fólk sem þeir eiga eitthvað vantalað við, oft unglinga í flóttamannabúðunum sem hafa kastað steinum. Annars er allt með kyrrum kjörum hér og ég hef varla kynnst öruggari stað. Við læsum ekki húsinu og skiljum verðmæti eftir á glámbekk. Á markaðnum reynir enginn að pranga né setja upp óeðlilegt verð og allir bjóða mann brosandi velkominn. Stelpurnar hópast að mér og spyrja hvað ég heiti, hvaðan ég sé og hvernig ég hafi það og flissa þegar ég reyni að svara á arabísku (en ég er byrjuð í arabískuktímum). Strákanir spyrja að því sama og vilja æfa sig í ensku. En þegar ég er komin nægilega langt í burtu kalla þeir hlægjandi ,,Fuck your mother!”   

 

 

Ástandið var verst hér í Nablus árin 2002 og 2006. Skólastýran í stúlknaskólanum þar sem ég kenni var áður skólastjóri í Balata flóttamannabúðunum og hún sýndi mér myndir sem teknar voru eftir innrás Ísraelsmanna í skólann í febrúar 2006. Skólinn, sem í eru um þúsund nemendur, var byggður af Sameinuðu þjóðunum fyrir örfáum árum. Hermennirnir voru þrjá daga að vinna vinnuna sína og þegar kennarar og nemendur gátu snúið aftur í skólann sinn voru borð, stólar og tölvur í maski, dónaleg orð skrifuð á töflurnar, hland í kókflöskum um allan skólann og skólalóðin útskitin. ,,Við grétum,” sagði hún ,,fyrst voru heimili okkar eyðilögð og svo skólinn.” Í næsta bloggi ætla ég að segja ykkur meira frá þessum skólastjóra og því merkilega starfi sem hún vinnur. Nú er ég búin að kenna í viku og finnst það rosalega skemmtilegt. Ég er að kenna myndlist í stúlknaskólanumauk þess sem ég kenni starfandi blaðamönnum og starfsfólki sérskóla fyrir fatlaða ensku. Síðastliðinn mánudag kenndi ég ensku í fyrsta skipti á ævinni – og hvað haldið þið? Kennslustundin var tekin upp og klippt inn í rússneska heimildamynd!   

 

 

 Jæja, þá ætla ég að bregða mér í bað (sem líklega verður kalt og hálfþurrt) og taka svo rútu til il-Quids (Jerúsamlem) þar sem ég fæ að búa hjá hjónunum sem ég sagði frá í fyrsta bloggi.   Ég óska ykkur gleðilegra páska frá landinu helga.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og gleðilega páska.

 Takk fyrir fróðlega og skemmtilega pistla frá Palestínu. Hlakka til að lesa meira ... gangi þér sem best!

Kær kveðja

Guðrún

Guðrún Hálfdanardóttir (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Björg Árnadóttir
Björg Árnadóttir
Sjálfstætt starfandi í ReykjavíkurAkademíunni.Myndlistar- og ritlistarkennari, blaðamaður og með meistarapróf í menntunarfræðum.

Færsluflokkar

Júlí 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband