Nazar og Hamza er háskólanemar og sjálfboðaliðar hjá Project Hope. Þeir komu og sóttu mig á sunnudaginn, sögðust ætla að sýna mér tyrkneska baðið, rómverska leikhúsið, frægt kaffihús, vatnsveitu, sápu-, sælgætis- og kryddverksmiðju. Ég bjóst við dagsferð á bíl enda er Nablus 300.000 manna borg, en við fórum fótgangandi og sáum allt á þremur tímum, auk þess sem ég keypti í matinn á markaðnum. Allir þessir staðir reyndust vera á sama blettinum innan gömlu borgarmúranna. Nablus er ævaforn borg sem liggur í dalverpi á milli fjallanna Gerizim og Ebal. Borgin var endurreist árið 70 e. Kr og mörg hús eru enn í notkun sem byggð eru á 5. öld eða fyrr. En eyðileggingin er mikil og endurreisnin hæg því allt er skemmt jafnóðum og þeir staðir helst sprengdir sem mest menningargildi hafa. Nablus hefur farið illa út úr átökunum á Vesturbakkanum enda hefur andstaðan hér verið mikil. Hazma segir mér að í seinni Intifada á árunum 2002-2006 hafi húsið sem hann bjó í verið sprengt. Árið 2002 var sérlega erfitt því þá var oft útgöngubann t.d. var samfellt útgöngubann frá júlí fram í október sem aðeins var aflétt í sautján klukkutíma til að fólk gæti aflað vista. Grunnur miðbæjarins eins og hann er í dag er á milli tveggja og þriggja þúsunda ára gamall.
Ég fer ekki mjög nákvæmlega með tölur í þessu bloggi, skrifa bara það sem ég heyri og les án mikillar heimildarýni. Ég þarf því örugglega að leiðrétta eitt og annað sem ég hef skrifað því sumt misskil ég og skil betur síðar. Í síðasta bloggi rakti ég til dæmis ástæðu þess að hér í Nablus sé tyrkneskt bað til yfirráða Tyrkja á Ottómantímanum. Nú hef ég séð baðið og verið sagt að hér hafi það staðið í 2500 ár. Ég ætla í bað á þriðjudaginn því þá er það opið konum, en hina dagana aðeins körlum. Annað sem ég vil taka fram varðandi bloggið mitt er að ég ætla ekki að hafa miklar skoðanir á tildrögum ástandsins, stofnun Ísraelsríkis, ísraelskum stjórnmálaflokkum og palestínskum frelsishreyfingum, tveggja ríkja lausninni eða íhlutun Bandaríkjamanna. Hins vegar tek ég afstöðu með því að segja frá því sem ég heyri og sé á herteknu svæði.
Við fórum fyrst í krydd- og kaffiverksmiðjuna. Hún er ekki gerilsneydd og glansandi heldur meira í ætt við heimili þar sem komið hefur verið fyrir framleiðslutækjum. Þarna var líka Bedúínatjald sem var eins konar safn og þar var mér borið jurtate á meðan ég talaði við verkamennina. Þeim fannst fréttnæmt að til væri herlaust land með offramboð á landrými og töluðu svo lengi um það sín á milli að ég greip í fyrsta skipti til lítilsháttar kunnáttu minnar í arabísku og sagði jala jala (jæja, höldum áfram). Ég var leyst út með kryddblöndu í poka til að krydda með íslensku kjötsúpuna sem ég bauð sambýlisfólki mínu í gærkvöldi. Nú á ég tuttugu börn hér plús þrjú heima. Kjötkaupmennirnir á markaðnum hjuggu fyrir mig lamb í spað og ég keypti hið ólíklegasta grænmeti í súpuna. Yndislegt að kaupa í matinn hérna! Sælgætisverksmiðjan var líka hálfgerður heimilisiðnaður, en sápuverksmiðjan var lokuð. Fræga kaffihúsið var fjögur borð og samtýningur af stólum þar sem búið er til heimsins besta kunafeh, en það er eftirréttur úr heitum geitosti. Það hafði mest áhrif á mig að skoða rómverska leikhúsið, menningarverðmæti sem eru rústir einar og hver tilraun til uppbyggingar skotin niður. Á efstu bekkjum hringleikahússins eru einhvers konar skýli sem kallast mannabústaðir. Á veggjum húsanna í gamla bænum má víða sjá plaköt með myndum af ungum mönnum sem Hamza og Nazir sögðu að væru hetjur úr uppreisninni og að þeir hefðu þekkt marga þeirra. Á fátæklegum húsunum í gamla bænum má líka víða sjá leifar af eldgömlum súlum, skreytingum og áletrunum. Göturnar iða af lífi og allir eru afar vingjarnlegir, koma til mín og segja Welcome to Palestine. Útlendingar eru sannarlega velkomnir hingað.
Fyrr í gærdag fór ég með Meghan, skoskum herbergisfélaga mínum, að hitta dabka-danshóp sem í eru unglingar á aldrinum 15-20. Dabka er þjóðardans og tónlist í Palestínu, Líbanon, Sýrlandi, Jórdaníu og Írak. Dansinn er í flokki línudansa, dansaður í röð eða hring með stífan efri hluta en mikilli fótavinnu. Takturinn er einn og hálfur því hoppuð eru eitt og hálft hopp. Við áttum að fá dabkanskennslu og Meghan ætlaði að kenna nútímaballett í staðinn. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að læra hvort tveggja og sá fyrir mér þrautskipulagðan danstíma a la Jazzballettskóli Báru. Fátt hafði þó gerst þegar ég fór eftir tvo klukkutíma og Meghan sem var þar í þrjá tíma varð aldrei vör við neina æfingu hjá danshópnum. Okkur tókst þó að læra helstu dapka sporin og Meghan reyndi að kenna dansinn sem hún var búin að semja en gafst upp því gólfið var svo skítugt að það var ekki hægt að skríða á því. Hún ætlar að semja standandi dans fyrir næsta tíma og kannski kenni ég salsa. Það er svo gaman hér að allt sem maður kann er vel þegið. Ég kom hingað til að kenna myndlist, en var sagt áðan að ég ætti að kenna ensku. Hins vegar get ég gert það með öllum þeim skapandi kennsluaðferðum sem ég kann svo að þetta er bara ögrun sem ég hlakka til. Project Hope eru kanadísk samtök sem starfa þó eingöngu í Nablus. Hér eru um 20 erlendir sjálfboðaliðar í senn og álíka margir innfæddir og hóparnir vinna saman. Maroof, einn verkefnastjóranna og fyrrverandi sjúkraflutningamaður, sagði mér að um 70% íbúa Palestínu séu ungmenni og stríðið hefur leikið kynslóðina sem á að erfa landið grátt. Konan hans er ítalskur sálfræðingur sem hann kynntist þegar hún var hér í hjálparstarfi við að fara inn í hertekin hús og hugga börn og hafa ofan af fyrir þeim. Markmið samtakanna Project Hope er að gefa ungmennum Palestínu von um frið og framtíð.
Flokkur: Bloggar | 5.4.2009 | 11:43 (breytt 6.4.2009 kl. 14:31) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.