Fartölvan er nú komin í netsamband og ég get bloggað með íslenskum bókstöfum. Reyndi í gær að semja texta án broddstafa, þ og ð - en hann varð fremur óskiljanlegur. Ég komst í bælið í Jerúsalem um fjögur í fyrrinótt eftir að hafa flogið til Tel Avív í gegnum Kaupmannanhöfn og Istanbúl. Ég lenti ekki í neinum vandræðum á Ben Gurion flugvelli því ég var svo heppin að fá að vera samferða hópi eldri borgara á leið í páskaferð undir leiðsögn Borgþórs Kjærnested.
Hópurinn fór um morguninn í skoðunarferð, en ég heimsótti vin Borgþórs sem gekk með mér um götur gömlu Jerúsalem og hjálpaði mér að finna ýmislegt sem mig vanhagaði um. Ég fór til hans á blágræna klíník sem líktist fremur þröngu heimili en tannlæknastofu. Ég komst aldrei almennilega að þjóðerni hans, en skildi að hann var grískrar ættar, fæddur í Jerúsalem, kristinn og hefur taugar til Palestínumanna. Mér skilst að ekki megi nefna nöfn þeirra opinberlega sem hafa slíkar tilhneigingar svo að ég kalla hann bara doktorinn. Það vakti kátínu hans þegar ég sagði að mig vantaði bók um Ísrael og Palestínu og hann bað mig um að biðja um slíkt rit á Upplýsingamiðstöðinni. Hann ætlaði að rifna úr hlátri þegar ég gerði það fyrir hann því maður nefnir ekki Ísrael og Palestínu í sömu andrá. Ég fékk þó að lokum Lonely Planet bók sem bæði er um Israel and the palestinian territories. Ferð okkar gekk hægt því allir heilsuðu doktornum og flestir spjölluðu við hann. Ég heyrði hann spjalla á hebresku, grísku, ensku og frönsku og hann sagðist líka tala arabísku auk þess sem hann brá fyrir sig sænsku við mig. Doktorinn er mikill áhugamaður um að láta palestínsk börn spila fótbolta, einkum stúlkur. Ég velti því fyrir mér hvort þær spili með blæjur. Borgþór kom með mörg kíló af notuðum fótboltatreyjum frá Íslandi. Doktorinn gaf mér í kveðjuskyni bleika nelliku og ég ákvað að reyna að koma henni heilli til Nablus. Konan hans, sem einnig er kristin af grískum uppruna, rekur barna- og fjölskyldumeðferðarstofnun í Bethlehem. Ég fékk lítið kver sem hún og samstarfsfólk hennar skrifaði og heitir Guided by the stars of Bethlehem A documentation of our experiences in Bethlehem during the year 2002. Þau hjón misstu sextán vikna fóstur þetta ár og fósturlátið var rakið til táragassins sem lá í loftinu í Bethlehem. Hún tileinkar því kverið öllum þeim sem misst hafa ástvini í Intifada. Af sömu ástæðum lætur doktorinn fótboltalið sín hefja alla leiki með mínútuþögn.
Þegar ég hafði kvatt doktorinn gerðist það sem alltaf gerist í erlendum borgum. Ég dreg að mér hvern einasta betlara. Ég held að ástæðan sé sú að ég er alltaf með pírð augun í sólinni sem er túlkað sem bros. Í Jerúsalem greiddi ég 20 pund fyrir brosið, líklega ætti ég frekar að fá mér sólgleraugu. Esther Azulin, áhugaverð útigangskona sagði mér sorglega sögu mína og bað mig svo um peninga. Þar sem ég var einmitt á leiðinni að taka út mína fyrstu shekels átti ég bara pund. Ég veit ekki hvað gerðist en allt í einu var hún komin með 20 pund í hendurnar, en ég með heimilisfangið hennar og óskir um frekari fjárstuðning minn og íslensku þjóðarinnar. Ég þurfti að ganga með bakpokann nokkurn spotta frá Jaffa-hliðinu að umferðarmiðstöðinni svo að merking orðins far-angur rifjaðist upp fyrir mér. Á leiðinni hitti ég hálfan tug rútubílstjóra sem buðu mér ferð til Ramalla fyrir allt að 200 shekels. Sem betur fer hafði ég kynnt mér verðið og fann að lokum réttu rúturnar, þær sem selja ferðina á 6 shekela. Ég stóð í nær tvo tíma á leiðinni til Ramalla, enginn stóð upp fyrir aldraði konu með bakpoka. En í Ramalla fann ég fyrst fyrir hjálpseminni sem ég hef skynjað síðan. Fólk lagði lykkju á leið sína til að sýna mér hvaða rútu ég ætti að taka og maður nokkur lagði líf sitt í hættu við að koma mér í rútuna til Nablus því það var fimmtudagssíðdegi, hvíldardagurinn framundan og rúturnar að fyllast. Hann náði fyrir mig í handskrifað númer og hjálpaði mér að hlaupa með pokann að hverri rútu sem nálgaðist og veifa miðanum og við lá að hann træðist undir þegar hann banaði mér leið í gegnum þvöguna. Nellikan komst aldrei til Nablus því að ég henti því sem eftir var af henni til hjálparhellunnar minnar.
Sjálf komst ég heilu og höldnu til Nablus og meira að segja án þess að þurfa að rekja ástæður ferða minna á neinum checkpoint. Á leiðinni til Jerúsamleg kölluðu eldri borgarnir mig stelpuna, en í kommúninni sem ég bý í hér í Nablus verð ég örugglega kölluð kellingin því allir eru á aldur við yngri börnin mín. En þau eru fín, gáfu mér að borða og buðu mér með sér í tyrkneskt bað sem ég var of þreytt til að þiggja. Vesturbakkinn, sem á dögum biblíunnar hét Júdea og Samaría, var undir Ottómanveldinu á margar aldir og því er hér tyrkneskt bað sem mun vera helsta aðdráttarafl Nablus sem annars er þekkt fyrir ólífuolíu og sápur. Og hér í Galelíu var brunnur Jakobs þar sem Jesús bað samversku konuna að gefa sér og drekka. Tá segði hin samverska kvinnan við Hann: Hvussu ber tað til, at Tú, sem ert Jødi, biður meg, samverska kvinnu, um nakað at drekka? Tí Jødar koma ikki saman við Samverjar. Á þessari biblíutilvitnun sést að þegar á þessum tíma kom fólki á þessum slóðum ekki heldur vel saman (ég get ekki stillt mig um að hafa tilvitnunina á færeysku). Í dag er hvíldardagur múslima, á morgun gyðinga, á sunnudögum kristinna og mánudaginn enn einnar þjóðar sem býr hér og ég man ekki hvað heitir. Þetta er sko fjölmenning í lagi. Við sjálfboðaliðarnir eigum frí á föstudögum og laugardögum svo að ég byrja ekki að vinna fyrr en á sunnudag. Á morgun ætla ég að segja ykkur frá Nablus, húsinu sem ég bý í og Project Hope.
Flokkur: Bloggar | 3.4.2009 | 17:02 (breytt 6.4.2009 kl. 08:44) | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fróðlega frásögn og gangi þér allt í haginn.
Erum á fullu að undirbúa árshátíð. þín er sárt saknað.
Hugsum til þin og allra hinna.
Kv.
Guðrún
Guðrún Hallgrímsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.